10% eiga 2.100 milljarða

10% þjóðarinnar á 62% af öllum eignum.
10% þjóðarinnar á 62% af öllum eignum. mbl.is/Golli

Eignastaða Íslendinga batnaði á síðasta ári líkt og árið á undan. Þeir ríkustu, 10% þjóðarinnar, eiga alls um 62% allra eigna umfram skuldir eða 2.100 milljarða króna.

Hagstofan birtir árlega niðurstöður á eigna- og skuldastöðu einstaklinga samkvæmt skattframtölum. Eignir jukust í fyrra líkt og síðustu ár en meðalskuldir stóðu í stað, eigið fé jókst en þó ekki jafnmikið og árið 2015. „Við samanburð á samtölum milli ára ber að hafa í huga að skattgreiðendum hefur fjölgað og meðaltal vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,7% milli áranna 2015 og 2016. Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Eigið fé (það eru eignir fólks að frádregnum skuldum) jókst um 13% árið 2016 og fór í liðlega 3.300 milljarða króna. „Það er þó minni hækkun en árið 2015 þegar eigið fé jókst um 17% milli ára. Þau 10% sem eiga mest eigið fé eiga alls um 62% heildarupphæðar eigin fjár eða 2.100 milljarða króna,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.

Samanlagðar eignir fjölskyldna sem eru í hæstu tíund eigna nema 2.300 milljörðum króna eða alls 45% af heildareignum. Þessi sami hópur á samtals 400 milljarða króna í verðbréfum eða 86% af heildarverðbréfaeign.

23% fjölskyldna skuldlausar

Heildarskuldir námu 1.900 milljörðum króna í árslok 2016 og jukust um 3% frá fyrra ári. Árið 2016 voru 23% fjölskyldna skuldlausar sem er aukning um tvö prósentustig frá fyrra ári. Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur rúmlega 5 milljónir króna eða minna og 90% minna en 32 milljónir króna. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 700 milljörðum króna eða 39% heildarskulda.

Tæplega 5.900 fjölskyldur skulda meira en þær eiga 

Fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði (það þýðir að skuldir eru hærri en bókfærðar eignir) fækkaði í fyrra líkt og undanfarin ár. Árið 2016 voru 5.856 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign eða um 20% færri en árið 2015. Að meðaltali var eiginfjárstaða þessara fjölskyldna neikvæð um 5 milljónir króna sem er svipuð upphæð og árið á undan.

Heildareignir fóru úr 4.800 milljörðum króna í árslok 2015 í 5.200 milljarða króna í lok árs 2016 sem er aukning um 9% milli ára. Eignir samanstanda af fasteignum, ökutækjum, innistæðum í bönkum og verðbréfum. Hlutur fasteigna var 73%, ökutækja 5%, bankainnistæða 12% og verðbréfa 9%.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK