Seldi sinn hlut og fjárfesti á Íslandi

Sigurður Garðarsson fjárfestir.
Sigurður Garðarsson fjárfestir. Ljósmynd/Aðsend

Sigurður Garðarsson fjárfestir hefur um langa hríð búið í Noregi þar sem hann byggði upp stórt þjónustufyrirtæki með þúsund starfsmenn. Eftir að hafa selt sinn hlut sneri Sigurður sér að fasteignaþróun á Íslandi.

„Fjárfestingar mínar á Íslandi byrjuðu um aldamótin en umsvifin hafa mest verið síðustu 12 mánuði,“ segir Sigurður sem keypti stóra sumarhúsalóð árið 2000 og byggði þar fjóra sumarbústaði núna í vor. „Það eru spennandi tímar á Íslandi og ég ætla að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er að byrja. En maður fer varlega af stað.“

Sigurður flutti til Noregs fyrir 35 árum og starfaði í mörg ár hjá þjónustufyrirtækinu Compass Group. Árið 2011 hann stofnaði veitinga- og þjónustufyrirtækið 4service með fjórum fyrrverandi samstarfsfélögum. Fyrirtækið seldi þjónustu eins og mötuneyti og þrif til fyrirtækja á borð við Statoil. Eftir fjögur og hálft ár í rekstri voru starfsmenn 4service orðnir þúsund talsins. 

„Við vorum fjórir framkvæmdastjórar hjá Compass Group og hættum á svipuðum tíma. Síðan hittumst aftur fyrir tilviljun og ákváðum að fara í eigin rekstur sem endaði með því að við seldum fyrirtækið til fjárfestingasjóðsins Norvestor.“ 

Sigurður beindi sjónum að Íslandi eftir að hafa selt sinn hlut. Hann er með mörg járn í eldinum og vinnur meðal annars með sveitarfélögum að húsnæðisuppbyggingu. 

„Ég er að setja í gang stór verkefni á Suðurlandi þar sem mikill skortur er á íbúðum í smáum sveitarfélögum. Í Vík í Mýrdal er ég síðan fara í stórt verkefni í samvinnu við sveitarfélagið en planið er að byggja 15 húsa götu.“

Vantar nýsköpun á byggingarmarkaði

Húsin eru framleidd í verksmiðju í Eistlandi, flutt í hlutum til Íslands og sett saman. Hugmyndina fékk Sigurður eftir dvöl í norðurhluta Noregs.

„Þar kynntist ég fyrirtækjum sem voru flink í þróun á fasteignum á afskekktum svæðum. Þetta gengur hratt fyrir sig og er vandað,“ segir Sigurður og bætir við að vöntun sé á nýsköpun á byggingarmarkaði á Íslandi. 

Mikill viðsnúningur hefur orðið á afkomu fjárfestingafélags Sigurðar, Sigel. Tap upp á tæplega milljón íslenskar krónur árið 2015 varð að 890 milljóna króna hagnaði 2016. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK