Selja Refresco fyrir 200 milljarða

AFP

Stjórn Refresco, stærsta átöppunarfyrirtæki safa og gosdrykkja í Evrópu, hefur samþykkt yfirtökutilboð upp á 1,6 milljarða evra, tæpa 200 milljarða króna, frá frönskum og kanadískum fjárfestum.

Fyrirtækið var áður að stórum hluta í eigu Íslendinga. Stoðir áttu lengi vel um 40% hlut í Refresco, en eftir að félagið rann saman við evrópska drykkjarframleiðandann Gerber Emig í nóvember árið 2013 eignuðust Stoðir um þriðjungshlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Gerberg eignuðust 27,5% hlutafjár í nýju félagi og hluthafar Refresco, sem voru meðal annars Stoðir, Kaupþing og Vífilfell, fjárfestingafélagið 3i og hópur stjórnenda Refresco, 72,5%. Í ársuppgjöri Arion banka fyrir árið 2015 kom fram að hagnaður bankans vegna sölu á eignarhlut í drykkjavörufyrirtækinu Refresco Gerber og virðisbreytingar á eftirstandandi hlut bankans við skráningu á markað í Amsterdam hafi numið 6,3 milljörðum króna.

Samkvæmt lista yfir hluthafa Refresco á Ferskur Holding 1 (Stoðir) 14,53% hlut í félaginu. Miðað við það ætti félagið að fá tæpa 30 milljarða króna fyrir hlutinn í Refresco.

Á vef Arion banka yfir eignir til sölu eru Stoðir hf. en bankinn á 16,3% hlut í félaginu. Stærsta eign Stoða er um 12% eignarhlutur í Refresco Gerber.

EAB 1 ehf. en bankinn á 30% í félaginu. Eina eign félagsins er um 2,1% eignarhlutur í Refresco Gerber.

Refresco starfar með vörumerkjum eins og Innocent og Del Monte. Stjórn fyrirtækisins hafði hafnað yfirtökutilboði frá franska fjárfestingafélaginu PAI í apríl en tilboðið hljóðaði upp á 1,4 milljarða evra. 

Í  sameiginlegri tilkynningu Refresco og fjárfestanna, svo sem bcIMC, kemur fram að samkomulag hafi náðst um að hluthafar fengju 20 evrur á hlut. Miðað við það er markaðsvirði Refresco 3,3 milljarðar evra, 411 milljarðar króna. 

Framkvæmdastjóri Refresco, Hans Roelofs, segir að um eðlilegt verð sé að ræða og kauptilboðið sé enn eitt framfaraskref í rekstri þess. 

Alls starfa 3.500 manns hjá Refresco og nam hagnaður þess 82 milljónum evra í fyrra.

Í frétt Morgunblaðsins frá apríl 2006 kom fram að FL group ætti í viðræðum við breska fjárfestingafélagið 3i Europe Plc. um kaup á hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco. Félagið er ekki skráð á markað en það mun vera næststærsti drykkjarvöruframleiðandi sem framleiðir undir eigin merkjum í Evrópu. Ætla má að kaupverðið geti verið einhvers staðar á bilinu 40 til 50 milljarðar króna. Í tilkynningu FL Group til Kauphallar Íslands segir að viðræður séu á lokastigi og að niðurstöður þeirra muni liggja fyrir á næstu dögum en að FL Group muni ekki tjá sig frekar um málið á þessum tímapunkti.

Velta Refresco nam um 50 milljörðum íslenskra króna árið 2004 en hefur vaxið nokkuð síðan þá. Starfsmenn Refresco eru á bilinu 1.100 til 1.200 en það á og rekur ellefu drykkjarvöruverksmiðjur, fimm í Þýskalandi, þrjár á Spáni og eina í Frakklandi, Hollandi og Finnlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK