Dómur EFTA geti „ógnað lýðheilsu“

mbl.is/Kári

Bændasamtök Íslands harma niðurstöðu EFTA-dómstólsins og telja hann geta valdið íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógnað bæði lýðheilsu og búfjárheilsu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bændasamtökunum vegna málsins. Þar segir að málið sé þýðingarmikið hagsmunamál íslensks landbúnaðar og að fjölmargir hafi bent á þá áhættu sem felist í auknum innflutningi á hráu kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. EFTA-dómstóllinn komist að niðurstöðunni þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna. 

Tekið er fram að Ísland sé ekki aðili að evrópskum tryggingarsjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvarlegar sýkingar í landbúnaði og þyrfti ríkisvaldið ásamt bændum að bera slíkar byrðar.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir dóminn valda vonbrigðum en bændur muni ekki gefast upp.

„Við höfum barist í þessum málum um árabil og erum núna að skoða næstu skref í samvinnu við okkar lögfræðinga og ráðgjafa. Hvað sem öðru líður þá munum við áfram verja okkar stöðu sem er einstök. Það hefur komið skýrt fram í umræðu um þessi mál að okkar færustu vísindamenn í sýklafræði og bæði manna- og búfjársjúkdómum hafa varað sterklega við innflutningi á hráu kjöti og öðrum þeim vörum sem geta borið með sér smit. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu,“ segir Sindri.

Þá segir í tilkynningunni að sérstaða íslensks landbúnaðar felist meðal annars í því að hér sé búfjárheilsa góð og sýklalyfjanotkun í landbúnaði í algjöru lágmarki. Sýklalyfjaónæmi sé talin ein helsta lýðheilsuógn mannskyns á næstu áratugum. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir