Engin merki um hátíðniviðskipti í Kauphöllinni

Ekkert í íslenskum lögum hindrar það að hátíðniviðskipti (e. high frequency trading) fari fram í Kauphöllinni. Þau hafa ekki tíðkast á Íslandi hingað til og þykir ólíklegt að þess konar starfsemi verði komið á laggirnar sökum lítillar veltu á markaðinum. 

Hátíðniviðskipti eru framkvæmd af ofurtölvum sem eru forritaðar til að eiga í hlutabréfaviðskiptum. Ofurtölvurnar nota flókin algrím til þess að greina stefnur og strauma á markaðinum og geta þær framkvæmt umfangsmikil viðskipti á brotabroti af sekúndu. 

Deilt er um hvort hátíðniviðskipti séu skaðleg hlutabréfamörkuðum. Eftirlitsstofnanir í Bandaríkjunum hafa haldið því fram að þau magni sveiflur og kenna þeim um hið svokallaða „Flash Crash“ árið 2010 á bandarískum hlutabréfamörkuðum. Þá varð mikil og snörp lækkun á verði hlutabréfa sem varði í 36 mínútur. 

Á móti segja fjármálafyrirtæki að hátíðniviðskipti auki greiðslugetu og minnki verðbil kaups- og sölutilboða. 

Þrengt að í ársbyrjun 2018

Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn mbl.is segir að ekki sé neitt í núverandi lögum sem hindri að viðskipti af þessu tagi geti farið fram hér á landi. Viðkomandi fjármálafyrirtæki sem stundaði slík viðskipti þyrfti samt sem áður að uppfylla almennar skipulagskröfur í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. 

Með gildistöku Evróputilskipunarinnar MiFID II í byrjun árs 2018 verða hins vegar gerðar ýtarlegri kröfur til þeirra sem ætla sér að stunda hátíðniviðskipti. 

Umfang markaðarins of lítið

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að engin hátíðniviðskipti hafi farið fram í Kauphöllinni. 

„Umfangið er of lítið, það þarf fleiri þátttakendur og meiri veltu. Á Nasdaq-mörkuðum á Norðurlöndum telja viðskiptin á hverjum degi nokkur hundruð þúsund en hér á Íslandi er þau að jafnaði 200 til 250 talsins á hverjum degi. Það þarf töluvert mikið að breytast svo að hér myndist grundvöllur fyrir svona viðskipti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK