Banna verslun á sunnudögum

Pólskar konur í verslunarleiðangri.
Pólskar konur í verslunarleiðangri. AFP

Pólska þingið samþykkti í dag lög sem banna að mestu viðskipti á sunnudögum. Lögin taka gildi í skrefum og verða fullgild árið 2020. Hafa kannanir sýnt að neytendur eru á báðum áttum um þá ákvörðun að takmarka verslunarfrelsi.

Verslunarsamband í landinu kynnti hugmyndina fyrst með borgaralegu frumvarpi í fyrra. Samkvæmt lögunum sem nú hafa verið samþykkt er verslun aðeins leyfð á fyrsta og síðasta sunnudegi hvers mánaðar frá og með mars á næsta ári. Árið 2019 er gengið skrefinu lengra og verslun aðeins leyfð síðasta sunnudag hvers mánaðar. Þegar lögin hafa að fullu tekið gildi verður aðeins leyfilegt að versla sjö sunnudaga á ári, þar með talið tvo sunnudaga fyrir jól og einn fyrir páska.

Bannið nær til verslana hvort sem þær eru í eigu erlendra aðila eða innlendra. Ekkert bann verður lagt á netverslun og smábúðir á borð við bakarí og bensínstöðvar mega hafa opið á sunnudögum. 

254 af 460 þingmönnum Póllands samþykktu lögin. 156 voru á móti og 23 sátu hjá.

Verslunarsambandið segjast hafa lagt hugmyndina fram til að tryggja frí verslunarfólks um helgar. Andstæðingar laganna segja að það takmarki atvinnutækifæri fólks, m.a. skólafólks, sem vinni oft og mikið um helgar. Þá er talið að bannið verði til þess að Pólverjar sæki í auknum mæli til nágrannaríkjanna til að versla.

Viðskiptasambandið hefur sterk tengsl við kaþólsku kirkjuna í Póllandi sem hefur lengi óskað eftir því að verslunarbann verði á sunnudögum af trúarlegum ástæðum. 

Í kjölfar falls kommúnismans árið 1989 var verslun gefin frjáls og búðaráp á sunnudögum er vinsæl dægradvöl fjölskyldna í Póllandi. Neytendur eru sagðir á báðum áttum hvað bannið snertir. Ein könnun leiddi í ljós að um 76% neytenda vildu geta verslað á sunnudögum en vildu samt sem áður að verslunarfólk fengi tvær fríhelgar í mánuði. 

Í annarri könnun sögðust aðeins 37% þeirra sem tóku þátt vera mótfallin banninu. Verslun á sunnudögum er bönnuð með öllu í Austurríki.

Fleiri Evrópuríki eru með takmarkanir á verslun á sunnudögum, m.a. Sviss og Noregur. 

Verslunarfrelsi hefur ekki verið algjört í Póllandi hingað til. Verslanir þar eru lokaðar í tólf daga á ári á stórhátíðardögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK