Fataverslunin að flytjast heim

Ný verslun Next í Kringlunni.
Ný verslun Next í Kringlunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Verslunin er byrjuð að flytjast heim, við sjáum það greinilega,“ segir Haraldur Bergsson, annar af tveimur nýjum eigendum Next á Íslandi, sem opnaði nýja verslun í Kringlunni í nóvember. 

Haraldur var um nokkurra ára skeið framkvæmdastjóri Next á Íslandi en lét af störfum um mitt ár 2016 og var ráðinn framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar. Hann og Jón Eggert Hallsson, viðskiptafélagi hans, náðu samningum við Next UK í haust og unnu dag og nótt til að ná að opna verslunina fyrir jólin. 

„Það eru ansi mörg handtök sem þarf til að opna svona búð,“ segir Haraldur.

Hann segir að nýja rýmið, sem telur 800 sölufermetra, henti mun betur en fyrra rými sem var ríflega 1.400 fermetrar á tveimur hæðum í Kringlunni

„Rýmið nýtist okkur afskaplega vel. Við lækkuðum verð um allt að 30%, bæði vegna styrkingar krónunnar en einnig vegna þess hversu hagkvæmt það er að vera á einni hæð,“ segir Haraldur og bætir við að það hafi komið viðskiptavinum á óvart hversu lágt verðið sé.

Sambærilegt verð og erlendis 

Hann segist sjá tækifæri í fataverslun á Íslandi þar sem samkeppnisstaða hennar hafi styrkst mjög að undanförnu. 

„Ég er mjög bjartsýnn á framtíð fatamarkaðarins hér heima þar sem verslanir geta nú boðið upp á sambærilegt verð og þekkist erlendis. Fólk getur keypt föt á sig og sína hérna heima og notið utanlandsferðanna án þess að burðast með poka í báðum höndum og troðfylla töskurnar af keyptum fötum fyrir heimferðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK