Lokuð inni í fundarherbergi og hótað

Ragnhildur Ágústsdóttir var forstjóri Tals um skamma hríð er mikil …
Ragnhildur Ágústsdóttir var forstjóri Tals um skamma hríð er mikil átök áttu sér stað innan fyrirtækisins. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Sú stað­reynd að ég er aftur barns­haf­andi hefur vakið upp minn­ingar frá þessum dramat­íska tíma,“ skrifar Ragnhildur Ágústsdóttir, fyrrverandi forstjóri Tals, í grein á Kjarnanum um kynbundið ofbeldi sem hún varð fyrir í starfi sínu árið 2009. „Ég var lengi vel hrædd við þessa menn og ótt­að­ist hvaða afleið­ingar það gæti haft í för með sér fyrir mig og mína fjöl­skyldu ef ég greindi frá mála­vöxt­um.“

Í greininni fjallar hún um það þegar karlmenn lokuðu hana inni í fundarbergi, meinuðu henni útgöngu og þvinguðu hana til að skrifa undir samning. Ragnhildur var barnshafandi á þessum tíma.

Ragnhildur lýsir því að vorið 2008 hafi verið gerðar breytingar í fyrirtæki sem hún hafði stýrt í nokkur ár og það sameinast öðru félagi. Í hinu sameinaða félagi sat hún í framkvæmdastjórn undir forystu nýs forstjóra. „Í fyrstu var ég spennt fyrir starf­inu en smám saman fóru að renna á mig tvær grím­ur, m.a. þar sem ég fór að sjá nýjar hliðar á hinum ann­ars geð­þekka for­stjóra,“ skrifar Ragnhildur.

Í desember komst hún að því að hún væri ólétt, þá 28 ára gömul. Hún fann fyrir mikilli ógleði og ætlaði sér að hvíla sig sem mest yfir jólin. „Jólin reynd­ust þó allt annað en róleg þetta árið,“ skrifar hún í grein sinni á Kjarnanum.

Að kvöldi laug­ar­dags­ins 27. des­em­ber fékk hún sím­tal frá stjórn­ar­for­manni félags­ins þar sem hún var beðin að koma á fund með meiri­hluta stjórnar morg­un­inn eft­ir. Var hún beðin um að halda sím­tal­inu og fund­inum leynd­um. Á fund­inum fékk hún að vita að kom­inn væri upp alvar­legur trún­að­ar­brestur milli meiri­hluta stjórnar og for­stjóra og að til stæði að víkja honum úr starfi. Var Ragnhildur beðin að stíga inn í starf for­stjóra í hans stað. „Á þessum tíma­punkti þótti mér rétt að greina frá því að ég væri gengin 7 vikur og gefa þeim færi á að draga boðið til baka. Eftir and­ar­taksum­hugsun héldu þau bón­inni til streitu og eftir að hafa ráð­fært mig við mann­inn minn og fjöl­skyldu þáði ég boð­ið.“

Ragnhildur Ágústsdóttir.
Ragnhildur Ágústsdóttir.

Ógleymanlegur fyrsti fundur

Mánu­dag­inn 29. des­em­ber mæti hún til vinnu vit­andi hvað væri í vænd­um. ­Í lok dags var búið að kynna hana sem nýjan for­stjóra. „Ég gleymi þó aldrei fyrsta fund­inum sem ég átti með allri stjórn­inni þar sem ég hitti í fyrsta sinn full­trúa minni­hluta­eig­anda, þekktan kaup­sýslu­mann. Þar sem við sátum tvö ein við fund­ar­borðið and­spænis hvort öðru meðan aðrir fund­ar­menn sóttu sér kaffi­bolla, hall­aði hann sér yfir borðið og sagði við mig í hálfum hljóð­um: „Þú hefur ekki hug­mynd um hvað þú ert búin að koma þér út í stelpa“. Mér kross­brá en svar­aði eins æðru­leys­is­lega og ég gat: „Nei, senni­lega er það rétt hjá þér.“.“

Ragnhildur lýsir því svo hvernig harkalegar deilur á vettvangi fjölmiðla hófust milli minnihluta stjórnar, sem var forstjóranum fyrrverandi hliðhollur, og meirihluta stjórnar. Hafi hún reynt að bera klæði á vopnin en hafði ekki erindi sem erfiði.

Í lok jan­úar úrskurðaði Sam­keppn­is­eft­ir­litið að til bráða­birgða skyldu full­trúar meiri­hluta stjórnar víkja og í þeirra stað skyldu tveir óháðir aðilar skip­aðir í stjórn. Í kjölfarið fékk Ragnhildur tvö nafnlaus hótunarbréf í pósti heim til sín þar sem hún var vöruð við því að beita sér eða taka afgerandi ákvarðanir í starfi forstjóra.

Lokuðu símanum 

Ragnhildur lýsir svo alvarlegu atviki sem átti sér stað með þessum orðum:

„Dag einn í lok febr­ú­ar gengu tveir menn inn á skrif­stofu til mín og ósk­uðu eftir að ég sett­ist inn í fund­ar­her­bergi með þeim. Um var að ræða fyrr­nefndan full­trúa minni­hluta stjórn­ar, sem hafði varað mig svo óhugn­an­lega við á okkar fyrsta fundi í lok des­em­ber. Með honum í för var virt­ur hæsta­rétt­ar­lög­mað­ur. Ég beindi þeim inn í fund­ar­her­bergið við hlið­ina, her­bergi þar sem einn vegg­ur­inn var úr gleri og þak­inn mattri filmu um mið­bikið til að hindra að hægt væri að sjá hvað fram færi á fund­um.

Ég var ekki fyrr komin inn í her­bergið en að hurð­inni var lokað á eftir mér og lagt fyrir mig plagg sem mér var gert að lesa. Ég sett­ist tor­tryggin niður og las fyrstu lín­urnar en spurði svo hvað væri eig­in­lega um að vera. Þá tók hæsta­rétt­ar­lög­mað­ur­inn um­búða­laust til máls og greindi frá því að um væri að ræða brott­vikn­ingu úr starfi þar sem ráðn­ing mín í starf for­stjóra hafi verið ólög­mæt og að ég þurfi að kvitta undir plagg­ið. Ég tók upp far­sím­ann til að hringja í lög­fræð­ing­inn minn sem ég hafði ráð­fært mig við varð­andi mína stöðu nokkrum vikum áður. Ég náði sam­bandi við skipti­borð­ið, kynnti mig og bað um sam­band og skömmu síðar svar­aði lög­fræð­ing­ur­inn með nafni en þá slitn­aði sam­band­ið. Ég hringdi strax aftur en heyrði þá rödd svara „Lokað hefur verið fyrir þetta síma­núm­er“.

Vit­andi hvernig fjar­skipta­geir­inn virk­aði leit ég van­trúuð á þá félaga sem enn voru stand­andi og spurði: „Létuð þið loka fyrir síma­núm­erið mitt?“ Þegar þeir svör­uðu ekki stóð ég upp og sagði „Ég ætla að fara inn á skrif­stofu og hringja í lög­fræð­ing­inn minn“. Þá steig hæsta­rétt­ar­lög­mað­ur­inn á­kveðið fyrir dyrnar og í sömu andrá sneri full­trúi minni­hluta­eig­anda sér að mér og ýtti mér ákveðið niður í sætið og sagði: „Þú ferð ekki út úr þessu her­bergi fyrr en þú ert búin að skrifa undir þetta plagg.“

Komin fjóra mánuði á leið

Þarna hætti mér að standa á sama og ég fann hvernig hjartað byrj­aði að ham­ast í brjósti mér. Þarna sat ég, gengin rétt um fjóra mán­uði á leið (eitt­hvað sem full­trúi minni­hluta­eig­anda vissi vel af), skít­hrædd um sjálfa mig og ófætt barn­ið, hugs­andi um hót­un­ar­bréfin sem mér höfðu borist í pósti og reyndi eftir fremsta megni að halda kúl­inu.

Ég reyndi aftur að standa upp en þegar mér var aftur ýtt af festu niður í sætið reyndi ég að höfða til skyn­semi þeirra og segja „Þið getið ekki bannað mér að tala við lög­fræð­ing­inn minn. Og þið getið alls ekki haldið mér hérna inni og lokað fyrir síma­núm­erið mitt“. Þeir hins vegar högg­uð­ust ekki og þrátt fyrir ítrek­aðar til­raunir til að tala um fyrir þeim end­aði þetta með því að ég sat þarna hálf­frosin og reyndi að lesa í gegnum skjalið til að skilja hvað í því stóð.  Það tók óra­tíma enda átti ég bágt með að hugsa rök­rétt og þurfti að end­ur­lesa sömu setn­ing­arnar aftur og aftur til að ná inni­haldi þeirra. Að því loknu reyndi ég aftur að tala um fyrir þeim og útskýra að það væri ekki nokkur leið að ég myndi skrifa undir þetta fjar­stæðu­kennda plagg en án árang­urs.“

Kærði frelsissviptingu

Ragnhildur telur að þetta hafi varað í 60-90 mínútur en sér hafi fundist hún sitja þarna klukkustundum saman. „Að end­ingu skrif­aði ég undir plaggið en bætti við fyr­ir­vara um að skjalið stæð­ist lög og regl­ur. Að því loknu fékk ég að standa upp og yfir­gefa her­berg­ið. Á þessu augna­bliki komst það eitt að hjá mér að leggja á flótta frá þessum mönnum og þessum hræði­legu aðstæðum og því gekk ég rak­leiðis stystu leið leið út úr hús­inu án þess að sækja yfir­höfn­ina mína eða veskið mitt.“

Hún fór rakleiðis á fund hjá lögfræðingi sínum og þaðan í hans fylgd á lögreglustöðina til að gefa skýrslu. Þar lagði hún fram formlega kæru um frelsissviptingu á hendur mönnunum tveimur. „Lög­reglu­mað­ur­inn sem tók af mér skýrsl­una sýndi mikla hlut­tekn­ingu en setti þó um leið þann varnagla að sjaldn­ast færu frelsissvipt­ing­ar­mál fyrir dóm­stóla – nema þá helst í mansals­málum.“

Ragnhildur segir að málið hafi spurst út og næstu daga hafi hún verið umsetin fjölmiðlamönnum. Hún hafi farið að ráðum lögfræðings síns og neitað að tjá sig. Þar sem um orðróm var að ræða var lítið fjallað um málið í fjölmiðlum. „Sjálf trúi ég því að það hafi verið full­trúar meiri­hluta stjórnar sem hafi lekið upp­lýs­ingum út um atvik­ið, vafa­laust til að koma höggi á minni­hluta­eig­end­ur.“

Málið látið niður falla

Nokkrum dögum síðar hringdi hæstaréttarlögmaðurinn áðurnefndi í farsímann hennar. „Vildi hann meina að um tóman mis­skiln­ing væri að ræða og að þetta hefði nú alls ekki verið nein vald­beit­ing – hvað þá frels­is­svipt­ing – og hvort ég vildi nú ekki draga kæruna til baka. Með hjartað í bux­unum sagði ég honum að það kæmi ekki til greina, að það væri sam­dóma álit mín og lög­fræð­ings­ins míns að þetta hefði verið gróft brot og bað hann vin­sam­leg­ast um að hafa ekki sam­band við mig aft­ur. Ég frétti síðar að lög­reglan hefði látið málið niður falla.“

Fleira átti eftir að koma upp úr kafinu. Ragnhildur komst að því að forstjórinn fyrrverandi hefði boðað til starfsmannafundar, áður en atvikið átti sér stað í fundarherberginu. Hann hafði tilkynnt starfsfólki að hún hefði látið af störfum og að hann væri aftur tekinn við.

„Til að gera langa sögu stutta þá sat for­stjór­inn sem fast­ast í sínum stól næstu 18 mán­uð­ina eða svo,“ skrifar Ragnhildur. „Þegar hann lét af störfum fór hann aftur í banka­geir­ann og vann þar sem stjórn­andi um nokk­urra mán­aða skeið þar til hann var settur í leyfi eftir að upp komu ásak­anir um kyn­ferð­is­lega áreitni gagn­vart nokkrum kven­kyns starfs­mönnum bank­ans.“

Tími þagnarinnar liðinn

Í júlí árið 2015 var hann svo ráðinn sem forstjóri opinberrar stofnunar. „Ég hef álasað sjálfa mig fyrir að hafa þagað yfir mál­inu. Að hafa ekki sagt frá og þar með lagt mitt á vog­ar­skál­arnar til að forða því að menn af þessu tagi kæmust í áhrifa­stöð­ur. Að hafa með þögn­inni stefnt öðrum konum í hættu. En ekki leng­ur. Tím­i þagn­ar­innar er lið­inn. Við verð­um, sem þjóð­fé­lag, að rísa upp gegn kúltúr sem lætur ein­stak­linga halda að þeir geti traðkað yfir annað fólk á skítugum skón­um. Við verð­um, sem þjóð, að krefj­ast þess að virð­ing sé borin fyrir öllum og standa vörð um þá hug­sjón.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK