Afkoman góð engu að síður

mbl.is/Eggert

„Á komandi árum verður heilbrigður hagvöxtur og við ætlum við að nýta þau til þess að lækka áfram skuldabyrði ríkissjóðs og styrkja innviðina,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem kynnti í morgun fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. 

Bjarni segir að áherslur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar endurspeglist skýrt í frumvarpinu. 

„Við erum að setja stóraukna fjármuni inn í heilbrigðiskerfið þar sem við styrkjum bæði Landspítalann og sjúkrastofnanir þvert yfir landið. Aukningin fer í tækjakaup en líka inn í rekstur og uppbyggingu. Framlög til háskólastigs og framhaldsskólastigs verða aukin og  sömuleiðis verður ráðist í viðbótarframkvæmdir í vegakerfinu.“

Fjárlagafrumvarpið sem Benedikt Jóhannesson, forveri Bjarna, kynnti í haust gerði ráð fyrir afgangi á næsta ári upp á 44 milljarða en í nýju frumvarpi lækkar sú tala í 35 milljarða. 

„Skýringin er sú að við munum eyða auknum fjármunum í þessi mál sem ég nefndi. Ef við horfum á fjárlagafrumvarpið frá því í haust þá var ekki tekið tillit til ýmissa veikleika á útgjaldahliðinni. Þar sem ný ríkisstjórn eykur við útgjöld með sérstökum ákvörðunum dregur fyrir þær sakir úr afkomunni en hún er engu að síður góð.“

Á kynningu frumvarpsins í morgun tilkynnti Bjarni að í upphafi þings yrði lögð fram ný fjármálastefna til næstu fimm ára sem ekki yrði tekin til endurskoðunar nema forsendur breyttust verulega.

Spurður um velferðarmál í frumvarpinu nefnir Bjarni fjármögnun á aðgerðaáætlun í kynferðisbrotamálum sem dæmi. 

„Við setjum inn aukna fjármuni vegna áætlunarinnar sem kynnt var af dómsmálaráðherra til þess að styðja betur við ýmsa þætti í réttarvörslukerfinu. Sömuleiðis verða settir meiri fjármunir í heilbrigðiskerfið vegna þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK