86 sagt upp hjá Odda

mbl.is/Hjörtur

Umfangsmiklar breytingar munu eiga sér stað hjá Odda á næstu mánuðum þar sem fyrirtækið mun hætta innlendri framleiðslu á plast- og bylgjuumbúðum. 86 störf leggjast af hjá Odda samhliða breytingunum. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Odda. 

Þar kemur fram að Oddi muni efla vöruúrval og þjónustu við viðskiptavini. Jafnframt verði innlend prent- og öskjuframleiðsla Odda efld. Breytingunum er ætlað að tryggja framtíð Odda á íslenskum markaði með því að styrkja og efla félagið til langs tíma á grunni áratuga þekkingar á umbúðum og prentverki.

Breytingarnar hafa í för með sér að á næstu mánuðum verður framleiðslu hætt í verksmiðjunum Plastprenti og Kassagerðinni og þess í stað lögð áhersla á að efla miðlæga starfsemi Odda í innflutningi umbúðalausna, prent- og öskjuframleiðslu og sölu og þjónustu við viðskiptavini.  

Við lögun starfseminnar að breyttum aðstæðum leggjast af 83 störf við framleiðslu og afleidd störf og fækkað verður um þrjá í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

„Stjórn og stjórnendum Odda þykir leitt að sjá á eftir því góða og reynslumikla starfsfólki sem nú skilur við fyrirtækið vegna þess og lögð verður áhersla á að veita því stuðning og aðstoð við næstu skref með virðingu fyrir hverjum einstaklingi í huga,“ segir í tilkynningunni. 

„Undanfarin ár hefur orðið hröð neikvæð þróun á starfsumhverfi íslenskra framleiðslufyrirtækja, sem m.a. má rekja til þess að sterkt gengi íslensku krónunnar og launahækkanir langt umfram það sem þekkist í samkeppnislöndum hafa veikt mjög samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Oddi hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun og mikið umbótastarf hefur þegar verið unnið innan fyrirtækisins til að bregðast við breyttum aðstæðum.“

Haft er eftir Kristjáni Geir Gunnarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Odda, að starfsumhverfi fyrirtækja eins og Odda sem eru í beinni samkeppni við erlenda framleiðslu hafi verið að þyngjast jafnt og þétt undanfarin ár. „Það er auðvitað ekki eini áhrifavaldurinn en hefur mikið að segja um niðurstöðuna og við teljum okkur þurfa að bregðast skýrt við breyttum aðstæðum í rekstrinum núna til að tryggja viðskiptavinum okkar áfram þau gæði og þjónustu sem Oddi stendur fyrir“ segir Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK