Síðasta ár umfram væntingar hjá Össuri

Stoðtækjafyrirtækið Össur hagnaðist um 6,2 milljarða í fyrra.
Stoðtækjafyrirtækið Össur hagnaðist um 6,2 milljarða í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stoðtækjafyrirtækið Össur skilaði 23 milljóna dala hagnaði á fjórða ársfjórðungi í fyrra, eða sem nemur um 2,3 milljörðum íslenskra króna. Sala tímabilsins var 154 milljónir dala eða 16 milljarðar íslenskra króna og samsvarar það 7% innri vexti.

Stoðtækjarekstur óx um 11% og segir í tilkynningu frá félaginu að þar sé að þakka góðu gengi hátæknivöru. Innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 3%.

Hagnaður fyrir skatta, vexti og afskriftir (EBITDA) jókst um 15% á ársfjórðungnum og nam 30 milljónum dala.

Heildarsala fyrirtækisins í fyrra nam 569 milljónum dala, eða um 61 milljarði íslenskra króna. Það nemur um 8% vexti í staðbundinni mynt og 5% innri vexti.

Stoðtækjasala jókst um 9% og innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 1%. EBITDA jókst um 10% á árinu og nam 103 milljónum dala og hagnaður fyrirtækisins í fyrra var 58 milljónir dala eða 6,2 milljarðar.

Haft er eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu til Kauphallarinnar að stoðtækjasala hafi verið umfram áætlaðan markaðsvöxt. Félagið hafi aukið fjárfestingar í rannsóknarverkefnum fyrir hátæknivörur á árinu, meðal annars spelkur með gervigreind, en þrátt fyrir það hafi rekstrahagnaður aukist hraðar en sala.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður sem nemur 0,13 dönskum krónum á hvern hlut fyrir síðasta ár og þá er einnig lagt til að hlutafé félagsins verði lækkað um tæplega 6,4 milljónir eigin hluta.

Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir 4-5% innri vexti og 19% EBITDA-framlegð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK