Hagnaður Arion banka 14,4 milljarðar

Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam 14,4 milljörðum króna, en árið 2016 var hagnaðurinn 21,7 milljarðar. Arðsemi eigin fjár nam 6,6% samanborið við 10,5% árið áður. Var eigið fé bankans um áramótin 225,6 milljarðar og eiginfjárhlutfall 24%, en árið áður hafði það verið 26,8%.

Hagnaður bankans fyrir skatta nam 20,4 milljörðum samanborið við 28,4 milljarða árið áður.

Vaxtatekjur bankans stóðu næstum því í stað milli ára. Voru 29,84 milljarðar á síðasta ári, en 29,9 milljarðar árið áður. Vaxtatekjur á síðasta ársfjórðungi síðasta árs voru aftur á móti nokkuð lægri en á síðasta ársfjórðungi 2016. Fóru þær úr 7,84 milljörðum í 7,26 milljaðra.

Þóknunartekjur bankans jukust hins vegar og fóru úr 13,98 milljörðum árið 2016 í 15,36 milljarða í fyrra. Voru þóknunartekjur á síðasta ársfjórðungi 4,65 milljarðar, eða tæplega 900 milljónum meiri en árið áður.

Aðrar tekjur bankans lækkuðu hins vegar um tæplega 2,5 milljarða milli ára og námu 8,2 milljörðum í fyrra. Rekstrartekjur í heild voru 53,4 milljarðar samanborið við 54,5 milljarða árið áður.

Rekstrarkostnaður lækkað um rúmlega hálfan milljarð og var um 30 milljarðar í fyrra, en bankaskattur hækkaði á móti um 300 milljónir. Þá var hrein virðisbreyting milli ára 186 milljónir, en hafði verið 7,2 milljarðar árið áður.

Ákvörðun um skráningu á næstu vikum eða mánuðum

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, að afkoman sé viðunandi, en að einskiptiatburðir setji nokkurn svip á árið. Segir hann tekjugrunn sterkan og fjárhagslegan styrk mikinn sem hafi gert bankanum kleift að fara í sérstaka arðgreiðslu upp á 25 milljarða sem ákveðin var á hluthafafundi fyrr í vikunni.

Segir hann að skráning bankans á markað, bæði hér á landi og jafnvel erlendis, sé til skoðunar og líkur séu á ákvörðun um næstu skref á næstu vikum og mánuðum.

Hafa óskað eftir því að gengið verði að veðum United Silicon

Heildarniðurfellingar bankans vegna United Silicon á árinu námu fjórum milljörðum, að teknu tilliti til skattaáhrifa. Segir Höskuldur að bankinn hafi óskað eftir því við skiptastjóra þrotabúsins að ganga að veðum bankans í félaginu með það að markmiði að gera nauðsynlegar úrbætur á verksmiðjunni og selja hana eins fljótt og auðið er.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK