Tvær stórar áhættuskuldbindingar í bókum Íslandsbanka

Íslandsbanki í Norðurturninum.
Íslandsbanki í Norðurturninum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Um áramótin var Íslandsbanki í tveimur tilfellum með það sem flokkast undir stórar áhættuskuldbindingar til einstakra fyrirtækja eða tengdra viðskiptamanna. Skilgreining á því eru lánveitingar sem eru stærri en 10% af eiginfjárgrunni bankans. Í öðru tilfellinu er um að ræða 11% og í hinu um 10% af eiginfjárgrunninum. Nema útlánin 18,7-20,6 milljörðum hvort.

Þetta kemur fram í fjárfestakynningu bankans, en í gær var ársreikningur bankans birtur. Í Ársreikningi Arion banka, sem einnig var birtur í gær, kemur fram að bankinn sé ekki með nein útlán sem falli undir þessa skilgreiningu. Ársreikningur Landsbankans verður birtur síðar í dag.

Útlánin eru þó vel innan bæði innri og ytri viðmiða, en samkvæmt reglum um áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum  geta þær orðið allt að 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka voru einnig tvær stórar áhættuskuldbindingar í fyrra, en þá voru þær 12 og 13% af eiginfjárgrunni bankans.

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is vísar Íslandsbanki til þess að ekki séu veittar upplýsingar um nöfn á einstökum viðskiptavinum, en að um innlend fyrirtæki í góðum rekstri sé að ræða.

Eiginfjárgrunnur Íslandsbanka er 187 milljarðar og hjá Arion banka 184 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK