Eignir sjóðsins nema 665 milljörðum

Rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gekk vel á liðnu ári að því er segir í fréttatilkynningu en ávöxtun eigna nam 7,6% sem svarar til 5,7% raunávöxtunar. Fjármagnstekjur sjóðsins voru 47 milljarðar og eignir í árslok 665 milljarðar króna. Hækkuðu eignirnar um 62 milljarða á milli ára. Vægi erlendra eigna í safni lífeyrissjóðsins jókst umtalsvert á árinu segir ennfremur í tilkynningunni og hlutfall sjóðfélagalána hækkaði nokkuð.

„Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2017 var 5,7%. Eignir hækkuðu um samtals 62 milljarða króna, þar af voru fjárfestingatekjur 47 milljarðar, og námu eignirnar samtals 665 milljörðum í lok ársins samanborið við 602 milljarða árið áður. Eignasafn sjóðsins er vel áhættudreift. Erlend verðbréf voru um þriðjungur heildareigna í árslok, samanborið við 27% árið áður. 17% eignanna eru í innlendum hlutabréfum. 23% eigna eru í innlendum ríkistryggðum skuldabréfum.“

Ennfremur segir að sjóðfélagalán hafi numið 82,3 milljörðum króna, eða um 12% af heildareignum, samanborið við 62 milljarða og rúm 10% af eignum árið áður. „Á árinu 2017 fengu að meðaltali 15.820 sjóðfélagar lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild sjóðsins, að fjárhæð 12.819 milljónir króna. Árið áður námu lífeyrisgreiðslur 11.570 milljónum og hækkuðu því um 11%. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu 568 milljónum.“

Þá segir að tryggingafræðileg staða, það er mælikvarði á getu sjóðsins til þess að standa undir skuldbindingum sínum, hafi styrkst á árinu 2017 og verið jákvæð um 6,4% í árslok, samanborðið við 4,2% árið áður. Virkir sjóðfélagar hafi verið 36.400 á árinu. Hjá sjóðnum hafi starfað 41 starfsmaður eða jafnmargir og árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK