Hagnaður bankanna 47 milljarðar

Þetta kort sýnir afkomu bankanna árið 2017.
Þetta kort sýnir afkomu bankanna árið 2017. Kort/mbl.is

Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans á síðasta ári eftir skatta nam 47,4 milljörðum króna á síðasta ári.

Hagnaðurinn dróst þar með saman um 11,1 milljarð króna samanlagt á milli ára en samanlagður hagnaður bankanna árið 2016 var 58,5 milljarðar króna. Hagnaður dróst saman hjá Íslandsbanka um 7 milljarða króna og um 7,3 milljarða hjá Arion banka en jókst um 3,2 milljarða hjá Landsbankanum.

Þetta kom fram í uppgjörum bankanna fyrr í vikunni.

Ef arðgreiðslur bankanna eru teknar saman námu þær samanlagt 53,4 milljörðum króna.

Hagnaður Arion banka nam 14,4 milljörðum króna, hagnaður Íslandsbanka 13,2 milljörðum króna og hagnaður Landsbankans 19,8 milljörðum.

Hjá Arion banka nam hagnaður fyrir skatta 20,4 milljörðum króna í fyrra, arðsemi eigin fjár nam 6,6% samanborið við 10,5% árið 2016 og arðgreiðslur voru 25 milljarðar króna.

Arion banki samþykkti á hluthafafundi að greiða að hámarki 25 milljarða í arð með því skilyrði að það tækist að selja 2% hlut í bankanum. Því skilyrði hefur verið mætt. Kaup á eigin hlutabréfum koma til frádráttar á arðgreiðslunni.

Hjá Íslandsbanka nam hagnaður fyrir skatta 14,8 milljörðum króna fyrir skatta, arðsemi eigin fjár 7,5% sem lækkaði niður úr 10,2% frá fyrra ári og aðgreiðslur námu 13 milljörðum króna.

Hagnaður hjá Landsbankanum fyrir skatta nam 29,7 milljörðum króna, arðsemi eigin fjár var 8,2% samanborið við 6,6% í fyrra og arðgreiðslur voru 15,4 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK