Gistinætur vanmetnar um allt að 17%

Ferðamenn í Almannagjá.
Ferðamenn í Almannagjá. mbl.is/Ómar Óskarsson

Allt að 17% gistinátta erlendra ferðamanna á Íslandi rata ekki inn í talningar Hagstofunnar. Þetta er meðal fjölmargra niðurstaðna úr nýrri könnun Ferðamálastofu fyrir tímabilið júlí til nóvember 2017. Lykilniðurstöður hafa nú verið birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar en meira mun bætast við á næstunni eftir því sem úrvinnslu niðurstaðna vindur fram.

Með könnuninni er nú einnig hægt að meta með nákvæmari hætti umfang gistingar sem ekki kemur inn í gistináttatölur Hagstofunnar. Þannig má sjá að 4,3% ferðamanna gistu hjá vinum eða ættingjum, höfðu íbúðaskipti eða voru sófagestir og 3,9% gistu í tjaldi eða húsbíl utan skipulagðra tjaldsvæða á því tímabili sem könnunin náði til.

Með hliðsjón af dvalarlengd má t.d. áætla að 17% gistinátta í ágúst hafi verið hjá vinum, ættingjum eða í tengslum við íbúðaskipti og „sófagesti“. Þetta hlutfall er 8,8% í nóvember. Þessar gistinætur rata ekki inn í talningar Hagstofunnar.

Ástand ferðamannastaða, öryggisþættir og aðgengi eru þeir þættir sem ferðamenn eru ánægðastir með en mannfjöldi á ferðamannastöðum og ástand vega fær lökustu útkomuna.

Almennt eru ferðamenn afar sáttir við heimsókn sína til landsins. Að meðaltali dvöldu gestir 9,3 nætur í ágúst en 5 nætur í nóvember. Íbúar frá meginlandi Evrópu eru þeir sem dvelja lengst á landinu og tæp 6% ferðamanna gistu í tjaldi eða húsbíl utan skipulagðra tjaldvæða síðastliðið sumar.

Evrópubúar dvelja lengst

Gistimátinn er nokkuð ólíkur eftir því hvaða tímabil er skoðað. Þannig voru hótel, hótelíbúðir og gistiheimili með um 60% af hlutdeild gistingar í nóvember, sem er tvöfalt meira en í ágúst þegar hún var 29%. Hlutdeild íbúðagistingar var áþekk á báðum tímabilum, 15-17%. Þá er einnig áhugavert að geta séð hvað meðaldvöl var breytileg eftir gistimáta og voru gestir tjaldsvæða, hvort heldur í tjaldi eða húsbíl, að dvelja flestar nætur síðastliðið sumar

Út frá könnuninni má reikna svokallað meðmælaskor (e. Net Promoter Score – NPS). Um er að ræða alþjóðlegan mælikvarða sem segir til um hversu líklegt eða ólíklegt er að mælt sé með tilteknum áfangastað, vöru eða þjónustu. Þannig er því ætlað að mæla frammistöðu ferðamannalandsins Íslands. Meðmælaskorið er óbreytt frá sumrinu 2016, eða 71, sem telst mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Með haustinu hækkar svo meðmælaskorið enn frekar eða upp í 77.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK