Veðurblíðan glæðir hjólasölu

Fleiri eru á reiðhjólum um þessar mundir og fyrr vegna …
Fleiri eru á reiðhjólum um þessar mundir og fyrr vegna veðurblíðunnar. mbl.is/​Hari

Reiðhjólasala TRI, sem selur Cube, jókst verulega á milli ára frá lokum febrúar og fram til dagsins í dag. Róbert Grétar Pétursson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að góða veðrinu hafi fylgt aukin sala. Á sama tíma í fyrra hafi verið snjór. „Það getur verið að aukin sala nú bitni á næsta mánuði. Viðskiptavinirnir hefðu mögulega komið eftir mánuð ef veðrið hefði verið leiðinlegt í mars,“ segir hann.

Róbert Grétar bendir enn fremur á að páskarnir séu nú fyrr á ferðinni en í fyrra og mikið sé um að hjól séu gefin í fermingargjafir.

Emil Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kríu, sem selur Specialized, segir að salan í ár sé svipuð og í fyrra. „En við sjáum fleiri á ferð – og fyrr vegna veðurs sem er af hinu góðu,“ segir hann. „Ég krossa bara fingur, að geta hjólað meira í stuttbuxum. Þá verð ég glaður.“

Jón Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri Arnarins, sem selur Trek, segir að salan sé svipuð og í fyrra. Hún sé ekki enn komin á fullt. Veðrið í febrúar hafi verið dapurt en „alveg þokkalegt“ í mars. „Okkar viðmið er að salan fer á fullt um páska. Ef þeir eru snemma eins og í ár, verður það strax eftir páska,“ segir hann.

Emil Þór segir að mest sé selt af cyclocross og svokölluðum fitness-hjólum, þau minni á cyclocross nema séu með beint stýri. Hann segir að fjallahjólatímabilið hefjist seinna. „Þegar snjó fer að létta í fjöllunum. Auðvitað er hægt að fjallahjóla en þegar frost fer að leysa úr jörðu verður það alger drulla og þá reynum við helst ekki að fjallahjóla. En við höfðum aðeins farið í Bláfjöllin í harðfennið og það er geggjað.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK