Óvissa með ferðaþjónustu áhættuþáttur

Seðlabankinn telur ekki forsendur til að hefja lækkun bindiskyldu.
Seðlabankinn telur ekki forsendur til að hefja lækkun bindiskyldu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er mat Seðlabankans að ekki séu enn forsendur til að hefja lækkun hinnar sérstöku bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi á skuldabréfamarkað og í hávaxtainnstæður. Vaxtamunur gagnvart útlöndum sé enn hár þótt hann hafi lækkað síðan bindiskyldan var sett á árið 2016 og því ekki ekki heppilegur tími til að taka áhættu af frekari hækkun raungengis.

Gangi spár eftir munu aðstæður til að lækka bindiskyldu hins vegar batna á komandi misserum þar sem búist er við að spenna haldi áfram að slakna hér á landi og vextir í umheiminum fari hækkandi. Þetta kom fram í ræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabanka Íslands sem fór fram í dag.

Seðlabankinn telur þó að nú séu efnahagslegar forsendur til að taka lokaskrefið í losun fjármagnshafta. Már sagði að þrátt fyrir að fjármagnshöft hefðu að mestu leyti verið losuð í mars 2017 væru enn ákveðnar takmarkanir í gildi sem þurfi að afnema.

„Til að losna undan núverandi undanþágum alþjóðasamninga um óheftar fjármagnshreyfingar, bæði gagnvart EES og OECD, þarf að afnema þessar takmarkanir og er eðlilegt að að því verði stefnt svo fljótt sem auðið er. Það er mat Seðlabankans að efnahagslegar forsendur séu til að taka lokaskrefið í losun fjármagnshafta. Það á líka við um aflandskrónur en þær nema nú um 3½% af landsframleiðslu en voru rúm 40% eftir að fjármagnshöft voru fyrst sett á undir árslok 2008. Það verður hins vegar ekki gert nema með lagabreytingu,“ sagði Már í ræðu sinni.

„Seðlabankar verða ekki gjaldþrota“ 

Hann greindi einnig frá því að framreikningar síðasta árs bentu til að afkoma Seðlabankans yrði neikvæð um 18 milljarða króna á ári. Nýir útreikningar sýndu að þetta tap hefði minnkað í 15 milljarða. Þá aðallega vegna minni gjaldeyrisforða og lægri vaxtamunar gagnvart útlöndum.

„Seðlabankar verða ekki gjaldþrota í hefðbundinni merkingu þótt þeir hafi neikvætt eigið fé enda hafa margir virtir seðlabankar búið við það yfir lengri eða skemmri tíma. Ástæðan er sú að kaupmáttur forðans er óskertur gagnvart þeim tilgangi sem hann þjónar og seðlabankar gefa sjálfir út gjaldmiðilinn sem þeir greiða innlendan kostnað í,“ útskýrði Már. Hann sagði það engu að síður óheppilegt að eigið fé Seðlabankans yrði verulega neikvætt. Það gæti grafið undan sjálfstæði hans og getu til að ná markmiði um verðstöðugleika.

Á næstunni verður því gripið til margvíslegra aðgerða til að bæta afkomu bankans. Meðal annars í gegnum óbeina þátttöku innlendra viðskiptabanka í kostnaði við forðann. Þá gæti einnig komið til innköllunar á hluta þess eigin fjár sem heimilt er með lögum að kalla inn frá ríkissjóði.

Hátt íbúðaverð einn áhættuþáttur

Már fór einnig yfir hve mikið hefði áunnist við endurreisn bankakerfisins á traustari grunni en byggt var á fyrir fjármálakreppuna. Bankarnir einbeittu sér nú fyrst og fremst að þjónustu við innlend heimili og fyrirtæki. Eigið fé þeirra væri nokkru yfir eiginfjárkörfum Fjármálaeftirlitsins sem gerðar voru fyrir fjármálakreppuna og lausafjárstaða væri góð.

„Þessi góða staða bankakerfisins á verulegan þátt í þeirri niðurstöðu fjármálastöðugleikaráðs á fundum sínum að undanförnu að fremur lítil hætta steðjaði á heildina litið að stöðugleika fjármálakerfisins,“ sagði Már.

Ráðið hefði þó bent á nokkra áhættuþætti. Einn slíkur væri hátt verð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis sem í samspili við lága vexti og töluvert veðrými gæti leitt til mun minni skuldaaukningar en verið hefur að undanförnu með hættu á bakslagi og auknum útlánatöpum.

„Að hluta til hefur verið brugðist við þessari áhættu með því að Fjármálaeftirlitið setti á síðasta ári þak á veðhlutföll íbúðarhúsnæðis í framhaldi af greiningu og umræðum í kerfisáhættunefnd sem vinnur fyrir fjármálastöðugleikaráð og að fengnu áliti ráðsins. Áfram verður fylgst náið með þróuninni á fasteignamarkaði á þessum vettvangi og möguleg frekari beiting þjóðhagsvarúðartækja skoðuð.“

Annar áhættuþáttur sem bent hefði verið á er óvissa með framvinduna í ferðaþjónustu og möguleg áhrif bakslags í henni á stöðu bankakerfisins.

„Þessir tveir áhættuþættir gætu hins vegar hæglega spilað saman. Í nýbirtri rannsóknarritgerð tveggja sérfræðinga Seðlabankans kemur fram að vöxtur í útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna í gegnum Airbnb hafi hækkað raunverð íbúðarhúsnæðis um 2% á ári síðustu þrjú árin og hafi skýrt um 15% af hækkun raunverðsins á þessu tímabili. Samdráttur í ferðaþjónustu getur því magnað upp lækkun húsnæðisverðs af öðrum orsökum. Áhrifin á bankakerfið yrðu þá meiri. Engu að síður er ólíklegt að þeir stæðu það ekki af sér en myndu líklega þurfa að nota eiginfjárauka sem til þess eru ætlaðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK