Fagna afnámi endurgreiðsluþaks

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins.
Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að afnema þak á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja, en afnám þaksins hefur verið eitt af áherslumálum hugverkaráðs SI. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í gær, kemur fram að miðað sé við að hámarksstuðningur eða þak á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði felldur á brott fyrir rekstrarárið 2019.

Áætlað er að þessi aðgerð auki endurgreiðslur á tekjuskatti um 600 milljónir króna á árinu 2020, en sú aukning er færð á útgjaldahlið ríkissjóðs.

Í fjármálaáætluninni segir að á annað hundrað fyrirtækja nýti sér nú slíka ívilnun og að heildarfjárhæð þessa hafi numið um 2,7 milljörðum króna á síðasta ári, vegna rekstrarársins 2016.

Ríkisstjórnin lítur svo á að í skattaívilnuninni felist hvati til rannsóknastarfs sem sé nauðsynlegur hluti þess að viðhalda samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

„Með frekari hækkun eða afnámi þaksins ættu fyrirtæki síður að sjá sér hag í að flytja úr landi,“ segir í fjármálaáætluninni og Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður hugverkaráðs SI, telur þetta vera mikla lyftistöng fyrir nýsköpun á Íslandi.

„Íslensk fyrirtæki sem stunda nýsköpun hafa lengi beðið eftir þessu en þetta er mikilvægt skref í þá átt að byggja upp öflugan hugverkaiðnað á Íslandi, efla nýsköpun og stuðla að verðmætasköpun til framtíðar. Með afnámi þaksins er verið að styrkja samkeppnishæfni landsins,“ er haft eftir Ragnheiði í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK