Tekjur Isavia 38 milljarðar króna

Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 28% milli ára.
Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 28% milli ára. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tekjur Isavia námu 38 milljörðum króna á árinu 2017, sem er 15 prósent aukning á milli ára. Stærstur hluti tekna félagsins er tilkominn vegna sölu á þjónustu, en farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 28% milli ára, flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fjölgaði um 12% og innanlandsfarþegum um 3%. Þetta kemur fram í ársreikningi Isavia sem samþykktur var á aðalfundi félagsins í dag.

„Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 9,9 milljörðum króna og jókst um 11% á milli ára. Heildarafkoma nam 3,9 milljörðum króna og lækkaði um 3,0 milljarða króna frá fyrra ári. Á sama tíma nema neikvæð áhrif vegna breytinga á gengismun um 3,6 milljörðum króna sem er að mestu tilkominn vegna fjármögnunar í erlendum gjaldmiðlum. Arðsemi eiginfjár var 13,6%,“ segir í tilkynningu frá Isavia.

Heildareignir samstæðunnar námu 72,5 milljörðum króna í árslok 2017 og jukust um 13,3 milljarða á milli ára. Þar af eru 59,7 milljarðar tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna og efnislegra eigna.

„Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 14,4 milljörðum króna og þar af eru um 13,1 milljarður vegna Keflavíkurflugvallar. Staða eigin fjár hækkaði um 3,9 milljarða króna milli ára sem skilaði um 42,7% eiginfjárhlutfalli sem er lækkun frá síðasta ári en þó ríflegt miðað við þá starfsemi sem félagið er í.“

Í lok árs 2017 störfuðu 1.202 starfsmenn hjá móðurfélagi Isavia, þar af þriðjungur konur. Á sama tíma störfuðu 313 hjá dótturfélögum, 221 hjá Fríhöfninni og 46 hjá Tern Systems.

30 milljarðar á næstum þremur árum

Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia, sagði á fundinum í dag að 1. febrúar síðastliðinn hefði stjórnin samþykkt að leggja þróunaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll, svonefnt Masterplan, til grundvallar allri uppbyggingu á vellinum.

„Og var jafnframt því samþykkt að hefja hönnun á fyrstu verkþáttum uppbyggingaráætlunar til ársins 2025. Þar er gert ráð fyrir því að á árinu 2018 verði boðin út bygging fyrir nýja farangursflokkunar- og skimunarstöð austur við norðurbyggingu flugstöðvarinnar, sem áætlað er að verði tilbúin 2020,“ sagði Ingimundur.

„Einnig er áformað að bjóða út á þessu ári framkvæmdir við áframhaldandi breikkun tengibyggingar og nýtt landamæraeftirlit norðan við núverandi flugstöðvarbyggingu, sem áætlað er að verði tilbúin í árslok 2021. Alls nemur kostnaður við þessa tvo framkvæmdaþætti ríflega 30 milljörðum króna á næstu þremur árum.“

Ný stjórn samþykkt og vefur opnaður

Á aðalfundinum var einnig samþykkt ný stjórn félagsins; Ingimundur Sigurpálsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson. Varastjórn skipa þau Sigrún Traustadóttir, Björg Eva Erlendsdóttir, Hreiðar Eiríksson, Ingveldur Sæmundsdóttir og Reynir Þór Guðmundsson.

Þá var nýr vefur Isavia formlega opnaður, en hann sameinar alla upplýsingagjöf um flugvelli Isavia á einum stað og þar geta farþegar fundið flugupplýsingar innan flugvalla á Íslandi sem og aðrar nauðsynlegar upplýsingar við undirbúning ferðalags innanlands sem erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK