Minna fjárfest í hótelum

Vinnukranar á Hörpureitnum.
Vinnukranar á Hörpureitnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlað er að fjárfesting í hótelum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum verði minni en verið hefur. Það er í takt við hægari fjölgun ferðamanna. Greining Íslandsbanka áætlar að fjárfestingin muni nema að meðaltali 12 milljörðum á ári á árunum 2018-2021. Til samanburðar var áætluð fjárfesting hótela um 16 milljarðar króna árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka sem ber heitið Íslensk ferðaþjónusta og fjallað verður um á morgunverðarfundi bankans í samstarfi við Íslenska ferðaklasann í Perlunni í dag.

Bæði verð og nýting hótela er hæst í Reykjavík borið saman við hin norrænu ríkin. Skýrsluhöfundar segja að það bendi til þarfar á auknu framboði til að auka samkeppni á hótelmarkaðinum og dempa um leið verðþrýsting.

Fjárfest fyrir 73 milljarða

Fram kemur í skýrslunni að áætlað sé að fjárfesting ferðaþjónustufyrirtækja árið 2016 hafi numið 73 milljörðum króna sem sé 19% aukning milli ára. Vegur framlag flugfélaga þar langmest en það var um 27 milljarðar króna, hótel fjárfestu fyrir 16 milljarða og bílaleigur fyrir 11 milljarða. Samanlagt hefur fjárfesting þessara þriggja starfsgeira verið um 80% af fjárfestingu greinarinnar í heild frá 2011.

Á árinu 2016 námu rekstrartekjur ferðaþjónustunnar, litið til fyrirtækja sem höfða fyrst og fremst til erlendra ferðamanna, 385 milljörðum króna, samkvæmt samantekt Creditinfo fyrir Íslandsbanka. Þar af voru rekstrartekjur tíu stærstu fyrirtækjanna 208 milljarðar króna eða sem nemur 54% af heildarrekstrartekjum greinarinnar. Flugfélögin Icelandair og Wow air eru langstærstu fyrirtækin í íslenskri ferðaþjónustu með samanlagðar rekstrartekjur upp á 147 milljarða króna eða um 38% allra rekstrartekna greinarinnar á árinu 2016. Skýrsluhöfundar segja því að ferðaþjónustan hérlendis einkennist af fáum afar stórum fyrirtækjum og mörgum litlum, en um 93% fyrirtækjanna skiluðu einungis um 19% af heildarrekstrartekjum greinarinnar.

Minni félög braggast

Gagnlegt getur verið að skoða miðgildi ákveðinnar rekstrarstærðar því rekstrarstærðir íslenskrar ferðaþjónustu litast talsvert af þeim fyrirtækjum sem eru stærri, segir í skýrslunni. Miðgildi rekstrarhagnaðar fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) hefur rúmlega fjórfaldast frá árinu 2011 hjá íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum til ársins 2016. Þegar miðgildið er svo skoðað eftir stærðarflokkum sést að það hefur hækkað hlutfallslega mest hjá litlum fyrirtækjum. Þetta bendir til þess að rekstrarhagnaður lítilla félaga í ferðaþjónustu hafi vaxið hlutfallslega umfram hagnað þeirra sem stærri eru. „Hefur því mestur árangur náðst á þennan mælikvarða hjá litlum félögum í greininni,“ segir í skýrslunni.

Að því er fram kemur í Íslenskri ferðaþjónustu hefur framleiðni vinnuafls í ferðaþjónustu aukist. Árið 2017 hafi um 81 ferðamaður verið á hvern starfsmann í ferðaþjónustu en til samanburðar voru þeir 38 á hvern starfsmann árið 2010. Fjöldi ferðamanna á hvern starfsmann hefur því meira en tvöfaldast frá upphafi áratugarins. Samkvæmt mælingum Hagstofu jókst framleiðni vinnuafls í rekstri, gististöðu og veitingarekstri um 44% á árunum 2008-2016, næstmest allra atvinnugreina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK