Bankarnir horfa fram á hertari gjaldeyrisreglur

Stefnt er að því að nýjar reglur um gjaldeyrisjöfnuð taki gildi um mitt ár 2018 en þær setja viðskiptabönkunum þrengri skorður, að því er kemur fram í nýju riti Seðlabanka Íslands, Fjár­mála­stöðug­leika, sem bank­inn gef­ur út ár­lega.

Núgildandi reglur voru settar í lok árs 2010 en endurskoðun á þeim hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Reglur þessar setja takmörk á gjaldeyrisjöfnuð, bæði fyrir einstaka gjaldmiðla og fyrir heildarjöfnuð.

„Grunnmarkmiðið með reglunum er að takmarka gjaldeyrisáhættu og gjaldeyrisójafnvægi einstakrar lánastofnunar, draga þannig úr gjaldeyrisáhættu þjóðarbúsins og stuðla að fjármálastöðugleika,“ segir í ritinu. 

Samkvæmt núgildandi reglum skal opin gjaldeyrisstaða í einstökum erlendum gjaldmiðlum hvorki vera jákvæð né neikvæð um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. Þá skal heildargjaldeyrisjöfnuður hvorki vera jákvæður né neikvæður um hærri fjárhæð en sem nemur 15% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis. 

Sporni við óhóflegum ójöfnuði

Við endurskoðunina hefur verið horft til þess að takmarka mögulegan ójöfnuð enn frekar og fela breytingartillögurnar m.a. í sér að leyfileg mörk viðskiptabanka verði þrengri en annarra lánastofnanna. Gildisvið reglnanna verði einnig útvíkkað til að ná utan um samstæður lánastofnanna. 

Þá er lagt til að fella út ákvæði um heimild Seðlabanka til að veita lánastofnunum sérstaka undanþágu til að hafa jákvæðan jöfnuð til varnar áhrifum gengisbreytinga á eiginfjárhlutfall. Er sú breyting sögð sporna við þeirri áhættu að jöfnuðurinn vaxi óhóflega eins og á árunum 2005 til 2008. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK