Íslandsáhugi á Google fer dvínandi

Erlendir ferðamenn í fjörunni við Jökulsárlón. Áhugi ferðamanna undanfarið ár …
Erlendir ferðamenn í fjörunni við Jökulsárlón. Áhugi ferðamanna undanfarið ár hefur farið dvínandi og nú er spurning hvort það muni hafa áhrif á fjölda ferðamanna þegar líður á árið. mbl.is/RAX

Áhugi á Íslandi hefur farið dvínandi undanfarið sé tekið mið af tölum frá netfyrirtækinu Google yfir fjölda leitarfyrirspurna þar sem leitað er að flugi til Íslands. Áhuginn náði hæstu hæðum í fyrra eftir samfellda uppsveiflu árin þar á undan, en í ár er staðan svipuð og árið 2016.

Þór Matthíasson, auglýsingastjóri vefmarkaðsfyrirtækisins The Engine, tók saman tölur yfir fjölda ferðamanna sem komu hingað til lands undanfarin ár og fjölda leitarfyrirspurna á ensku, spænsku, þýsku, frönsku og kínversku þar sem leitað var að flugi hingað til lands. Birti hann hluta af niðurstöðum sínum á heimasíðu The Engine nú á föstudaginn.

Ferðamenn koma 7-8 mánuðum eftir leit á Google

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar sést að fólk er helst að leita að flugi í kringum áramótin ár hvert. Þá er augljós toppur í leitarfyrirspurnum um slíkt. Tölur yfir ferðamenn sýna svo að flestir ferðamenn koma sjö til átta mánuðum síðar, eða um mitt sumarið.

Fylgnin milli þessara breyta undanfarin þrjú ár virðist umtalsverð. Þegar leitarfyrirspurnum fjölgar, þá fjölgar ferðamönnum hingað til lands í nokkuð réttu samhengi sjö til átta mánuðum seinna. Þannig spáði áhugi á flugi til Íslands í gegnum Google nokkuð nákvæmlega til um fjölgun farþega í fyrra og hægur stígandi í leitarfyrirspurnum um haustið er enn í réttu samhengi við fjölgun ferðamanna það sem af er ári.

Þór tekur fram að það sé fullt af fyrirvörum sem fylgi svona samanburði. Þannig notist Kínverjar að mestu ekki við Google og ef þeim fjölgi mikið skekki það niðurstöðu svona skoðunar. Þá geti umtal fræga fólksins erlendis oft haft skyndileg og óvænt áhrif á áhuga almennings.

Fjöldi ferðamanna samanborið við fjölda leitarfyrirspurna á Google. Eins og …
Fjöldi ferðamanna samanborið við fjölda leitarfyrirspurna á Google. Eins og sjá má er mikil fylgni á milli þessara breyta sem kemur í ljós um 7-8 mánuðum eftir að leitarfyrirspurnirnar eru framkvæmdar. Sjá má fleiri gröf á heimasíðu The Engine. Graf/Þór Matthíasson

Ljóst að áhuginn hefur dvínað

Hann telur þó að rýna þurfi betur í þessar tölur og mögulega þróun á næstu mánuðum þar sem þær geti haft einhver áhrif. „Ég trúi ekki öðru en að þessi áhugi hafi áhrif á túrista fjöldann,“ segir hann. „Ef við lítum á gögnin blákalt þá eru þau að segja okkur eitthvað,“ segir Þór og bætir við að það kæmi honum ekki á óvart að einhver stöðnun yrði í ár í fjölda ferðamanna miðað við þessar niðurstöður. „Ég ætla samt ekki að vera með spádóma um hvort það verði fjölgun eða fækkun, en þegar maður skoðar áhuga erlendra ferðamanna á Google þá er ljóst að hann hefur dvínað.“

Þór hefur sjálfur verið að rýna tölur frá Google nánar og segir að þar komi meðal annars fram dvínandi áhugi á ákveðnum ferðum hér innanlands sem hafi verið vinsælar hjá ferðamönnum. Ætlar hann á næstunni að greina ákveðna markaði enn frekar, en hann segir að fljótt á litið sé Bretland eini markaðurinn sem skeri sig nokkuð úr varðandi áhuga og raunkomur ferðamanna. Það virðist hins vegar tengjast veikingu pundsins og styrkingu krónunnar meira en hjá öðrum þjóðernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK