N1 dregur tilkynningu á samruna við Festi til baka

Höfuðstöðvar N1.
Höfuðstöðvar N1. Ljósmynd/Þorsteinn

N1 hefur ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu sína varðandi kaup félagsins á Festi hf, sem rekur m.a. Krónuverslanirnar. Samkeppniseftirlitið hefur haft kaupin til rannsóknar að undanförnu og var rannsókn málsins á lokstigi og ákvörðunar að vænta í dag.

Samkeppniseftirlitið greinir frá því í fréttatilkynningu, að það komi hins vegar ekki til ákvörðunar í dag, þar sem N1 hafi nú ákveðið að afturkalla samrunatilkynningu sína.

„Afturköllun á samrunatilkynningu er eðli máls samkvæmt einhliða ákvörðun N1 sem Samkeppniseftirlitið tekur ekki afstöðu til. Felur afturköllunin í sér að umræddu máli er lokið án ákvörðunar og að samruni N1 og Festi getur ekki að óbreyttu komið til framkvæmda,“ segir í tilkynningunni. 

Tilkynnir aftur um samrunann

Þá kemur fram, að N1 hafi hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að félagið hyggist tilkynna aftur um samrunann.

„Hefur N1 boðað að í hinu nýja máli muni N1 leggja fram tillögur að skilyrðum sem ætlað er að eyða þeim samkeppnishindrunum sem Samkeppniseftirlitið telur að stafað gætu af samrunanum.“

Jafnframt segir, að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á samrunanum hafi verið umfangsmikil. Með frétt sem birt hafi verið á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins 23. nóvember 2017 hafi verið gerð sérstök grein fyrir áherslum eftirlitsins við rannsókn málsins.

„Í framhaldi af nýrri samrunatilkynningu sem N1 hefur boðað mun Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til tillagna um skilyrði sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum. Verður meðferð þess máls hraðað eftir því sem kostur er,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK