Vöxtur skulda sá mesti í 9 ár

Viðsnúningur hefur orðið í þróun íbúðaskulda undanfarin tvö ár en …
Viðsnúningur hefur orðið í þróun íbúðaskulda undanfarin tvö ár en í janúar 2016 höfðu íbúðaskuldir heimila lækkað að raunvirði um 4,5% á einu ári. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vöxtur íbúðaskulda heimilanna hefur ekki verið jafn mikill og nú síðan árið 2009. Í febrúar voru íbúðaskuldir heimilanna 5,6% meiri að raunvirði en í sama mánuði árið áður og hefur 12 mánaða hækkun íbúðaskulda að raunvirði ekki verið meiri frá árinu 2009. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Íbúðalánasjóði.

Viðsnúningur hefur orðið í þróun íbúðaskulda undanfarin tvö ár en í janúar 2016 höfðu íbúðaskuldir heimila lækkað að raunvirði um 4,5% á einu ári. Síðan í upphafi árs 2016 hafa lægstu vextir óverðtryggðra íbúðalána lækkað um rúmlega eitt prósentustig og lægstu vextir verðtryggðra íbúðalána hafa lækkað um hálft prósentustig. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs í maí.

18% íbúðalána óverðtryggð lán

Ef horft er til tegunda íbúðalána heimilanna er hlutfall óverðtryggðra lána nú um 18% af heildarlánum og verðtryggð lán eru um 82%. Á sama tíma árið 2015 var hlutfallið um 13% óverðtryggð lán á móti 87% sem voru verðtryggð. Enn er því almennt svo háttað að á heildina litið kjósa heimilin að fjármagna íbúðir sínar með verðtryggðum lánum frekar en óverðtryggðum þótt örlítill umframvöxtur hins síðarnefnda lánaforms sé til staðar og hefur verið allt frá árinu 2010.

Ný útlán Íbúðalánasjóðs í mars 2018 námu 222 milljónum króna og öll voru þau almenn útlán. Til samanburðar námu almenn útlán í febrúar 168 milljónum króna.1 Meðalfjárhæð almennra lána var tæpar 14 milljónir króna.

Í lok mars nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 729 milljónum króna og undirliggjandi lánavirði var 7,5 milljarðar króna eða um 2,1% útlána sjóðsins til einstaklinga. Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam 270 milljónum króna og undirliggjandi lánavirði var 870 milljónir króna. Tengjast því vanskil 0,6% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila. Í lok mars nam heildarfjárhæð vanskila tæpum einum milljarði króna og lækkuðu vanskil um 36 milljónir króna milli mánaða. Vanskil ná samtals til 1,7% lánasafnsins en sambærilegt hlutfall var 2,8% í mars 2017.

Í lok mars 2018 átti Íbúðalánasjóður 375 íbúðir. Sjóðurinn seldi 15 eignir í mánuðinum og ein ný íbúð bættist við eignasafnið. Til viðbótar þeim eignum sem seldar voru í mánuðinum hefur Íbúðalánasjóður samþykkt kauptilboð í 41 eign og tilboðsgjafar vinna nú að fjármögnun þeirra. Í lok mars voru 130 eignir ÍLS í almennri sölumeðferð hjá fasteignasölum víðsvegar um landið. Þá voru í lok mánaðarins 209 íbúðir um land allt í leigu hjá eignasviði Íbúðalánasjóðs. Stór hluti þeirra er leigður til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær.

Hækkun fasteignaverðs 

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um alls 1,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins og ásett verð íbúða hækkaði um alls 1,8% á sama tímabili. Verð annarra íbúða en nýbygginga lækkaði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu frá ágúst 2017 þangað til í janúar síðastliðnum og nam lækkunin á þessu tímabili samtals 2 prósentustigum. Síðan í janúar hefur íbúðaverð á þessu svæði þó hækkað aftur.

Í 101 Reykjavík hækkaði verð annarra íbúða en nýbygginga um 6% milli fjórða ársfjórðungs 2017 og fyrsta ársfjórðungs 2018. 101 Reykjavík er það póstnúmer á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúðaverð hækkaði mest milli tveggja síðustu ársfjórðunga þegar nýbyggingar eru ekki taldar með. Utan höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð einna mest á Akranesi eða um 9% milli tveggja síðustu ársfjórðunga.

„Segja má að uppsveiflan á íbúðamarkaðinum hafi á undanförnum misserum dreift úr sér út fyrir næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins og nái nú til fleiri landsvæða en áður. Ein skýrasta birtingarmynd þessa er þróun meðalsölutíma íbúða. Hann var lengst af meira en tvöfalt lengri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu en á því hafa nú orðið breytingar. Meðalsölutími í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins styttist verulega árin 2016 og 2017 og varð sá sami og á höfuðborgarsvæðinu.

Undanfarið ár hefur meðalsölutími annars staðar á landsbyggðinni einnig styst. Nú er svo komið að meðalsölutími íbúða er svipaður á öllum þessum markaðssvæðum. Sölutími hefur þó lengst lítillega í nágrenni höfuðborgarsvæðisins á allra síðustu mánuðum eins og sést á meðfylgjandi mynd.1 Í apríl var 600 kaupsamningum um íbúðir þinglýst á höfuðborgarsvæðinu og 307 samningum um íbúðir utan höfuðborgarsvæðisins. Í báðum tilvikum er fjöldi kaupsamninga nálægt meðaltali undanfarinna tveggja ára,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

10% leigjenda hyggjast kaupa fasteign 

Samkvæmt nýlegri könnun Íbúðalánasjóðs eru 18% þjóðarinnar á leigumarkaði. Hlutfallslega jafnmargir eru á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Aðeins 10% leigjenda telja líklegt að þau kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum, sem er sama hlutfall og meðal þeirra sem búa í foreldrahúsum.

Einungis 7% þjóðarinnar telja þó að framboðið af leiguhúsnæði sem henti sér og  85% fólks á leigumarkaði telja ólíklegt að þau kaupi húsnæði á næstu 6 mánuðum. Af þeim sem búa núna í sinni fyrstu íbúð, sem rannsóknin leiddi í ljós að eru 24% allra húsnæðiseigenda, höfðu 63% verið á leigumarkaði áður en þau festu kaup á húsnæði og flestir þeirra höfðu verið á leigumarkaði lengur en þrjú ár. sinni fjölskyldu sé mikið og á það við á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem utan þess.

„Gögn um leiguverð sem Þjóðskrá Íslands birtir út frá þinglýstum leigusamningum sýna að leiguverð hefur hækkað um rúm 80% á síðastliðnum sjö árum, eða frá mars 2011 til mars 2018. Á sama tíma hefur íbúðaverð hækkað um 92% og laun um 66%. Undanfarið ár hafa þessar stærðir þó hækkað í svipuðum takti.

Leiguverð hefur hækkað um 10% undanfarna 12 mánuði á meðan íbúðaverð hefur hækkað um tæp 8% og laun um rúm 7%. Meira jafnvægi er því nú á húsnæðismarkaði en fyrir ári síðan þótt áhrifa gæti enn af mishröðum vexti húsnæðisverðs og launa á undanförnum árum. Í því samhengi má nefna að leiga sem hlutfall ráðstöfunartekna hjá lágtekjuhópum hér á landi náði tímabundnu hámarki árið 2012 samkvæmt gögnum Eurostat þegar lágtekjuhópar vörðu tæplega 60% ráðstöfunartekna í leigu á meðan hlutfallið var í kringum 45% á hinum Norðurlöndunum. Nýjustu gögn sem veita samanburð milli landa eru frá 2016 og sýna að hlutfallið er enn hæst hér á landi eða 50%. Það er þó nær stöðunni í nágrannalöndunum en árið 2012,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK