Þarf karlmann til að reka flugfélag

Akbar Al Baker, stjórnarformaður IATA og forstjóri Quatar-flugfélagsins, segir einungis …
Akbar Al Baker, stjórnarformaður IATA og forstjóri Quatar-flugfélagsins, segir einungis karlmann geta sinnt starfi hans. AFP

Flugiðnaðurinn vill laða fleiri konur til starfa í fluggeiranum, en nýr stjórnarformaður Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) virðist ekki hafa fengið fréttirnar. Svona hefst frétt á fréttavef BBC, þar sem haft er eftir Akbar Al Baker, stjórnarformanni IATA og forstjóra Quatar-flugfélagsins, að einungis karlmaður gæti sinnt starfi hans.

„Auðvitað þarf að vera karlmaður við stjórnvölinn af því að þetta er mjög krefjandi staða,“ sagði Baker á ársfundi IATA, en þörfin fyrir að auka fjölbreytileika var áberandi í umræðunni á fundinum.

BBC segir andköf og stunur hafa heyrst í fundarsalnum yfir ummælum Bakers sem síðar reyndi að skýra orð sín betur.

Sagði hann Qatar Airways hafa verið fyrsta flugfélagið í Mið-Austurlöndum sem réð kvenflugmenn ti starfa og að fjöldi kvenna væri í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu.

„Þannig að við hvetjum konur áfram. Við sjáum mikla möguleika fyrir þær í æðri stjórnunarstöðum,“ sagði hann. Kvaðst Baker því næst taka kvenleiðtoga fagnandi, svo framarlega sem hann gæti þjálfað hana upp í starfið.

„Það væri mér ánægja að fá konu sem umsækjanda um stjórnarformannsstarfið sem ég gæti þjálfað upp í að taka við starfinu af mér,“ sagði Baker við Bloomberg-fréttaveituna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ummæli hans hafa valdið fjaðrafoki, en á síðasta ári þurfti hann að biðjast afsökunar á að lýsa bandarískum flugfreyjum sem „ömmum“. Á sama tíma væri meðalaldur flugáhafna Qatar Airways 26 ára og þóttu þau ummæli lýsa bæði kynferðis- og aldursfordómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK