Eignir í stýringu sjóða drógust saman milli ára

Heildareignir í vörslu rekstrarfélaga um fjárfestingar- og verðbréfasjóði drógust saman um 30 milljarða í fyrra, samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem byggð er á ársreikningum fjármálafyrirtækja.

Samtals námu eignir í fjárfestingar- og verðbréfasjóðum 489 milljörðum króna um áramótin, en til samanburðar námu eignir í slíkum sjóðum 519 milljörðum króna ári áður.

Helsti munur á verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum er sá að verðbréfasjóðirnir eru söfn skuldabréfa og hlutabréfa sem eru auðseljanleg en fjárfestingarsjóðir eru form sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Heimildir fjárfestingasjóða til fjárfestinga eru því rýmri og eru fjárfestingar í þeim yfirleitt áhættusamari en í verðbréfasjóðum. Sérhæfðar fjárfestingar og lausafjársjóðir eru til dæmis hluti af fjárfestingarsjóðum.

Heildareignir í fjárfestingarsjóðum hérlendis voru rétt rúmlega 332 milljarðar króna í lok síðasta árs samanborið við 364 milljarða árið áður, sem er í kringum 9% samdráttur milli ára. Verðbréfasjóðir stækkuðu um nærri tvo milljarða króna milli lok árs 2016 og 2017, en þeir voru tæplega 157 milljarðar í árslok.

Fjárfestingarsjóðir minnka

Stefnir, sem er dótturfélag Arion banka, er umfangsmestur í rekstri verðbréfa- og fjárfestingasjóða hér á landi með 32% markaðshlutdeild á meðal fjárfestingasjóða og 25% hlutdeild á meðal verðbréfasjóða.

Heildareignir í fjárfestingarsjóðum Stefnis námu um 106 milljörðum króna um áramótin. Þó drógust eignir í fjárfestingarsjóðum Stefnis saman milli ára um 18 milljarða en þær voru 124 milljarðar króna í árslok 2016 .

Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, var með 82 milljarða króna í fjárfestingarsjóðum sínum um áramótin og Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka, var með 68 milljarða í heildareignum fjárfestingarsjóða og jukust þær um 6% á milli ára. Einungis Íslandssjóðir og Júpíter rekstrarfélag juku eignir í fjárfestingarsjóðum á milli ára.

Heildareignir í Júpíter, sem er dótturfélag Kviku banka, jukust úr 17,7 milljörðum króna í rúmlega 31 milljarð um síðustu áramót, en Kvika sameinaðist Virðingu í fyrra og voru sjóðir rekstrarfélags Virðingar sameinaðir sjóðum Júpíter í kjölfarið.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK