Mikill hagvöxtur í upphafi árs

Íbúðafjárfesting jókst um 38 prósent á fyrsta ársfjórðungi miðað við …
Íbúðafjárfesting jókst um 38 prósent á fyrsta ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagvöxtur mældist mikill á fyrstu þrem mánuðum ársins og hefur hann ekki verið meiri síðan á fjórða ársfjórðungi 2016. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Á fyrsta fjórðungi ársins mældist hagvöxtur 6,6 prósent borið saman við sama tímabil í fyrra. Hagvöxturinn var borinn upp af vexti útflutnings, aukinni fjármunamyndun og einkaneyslu. Áhrif útflutningsins voru þó mest og voru þau til jafns við samanlögð áhrif einkaneyslu og fjárfestingar.

Minni vöxtur einkaneyslu

Í Hagsjánni kemur fram að vöxtur í einkaneyslu á yfirstandandi hagvaxtarskeiði hafi náð hámarki í tíu prósentum á öðrum fjórðungi síðasta árs en stöðugt hafi dregið úr vextinum frá þeim tíma og var hann 5,9 prósent á fyrsta ársfjórðungi.

„Eitt af athyglisverðum einkennum núverandi uppsveiflu er að vöxtur einkaneyslu hefur verið minni en vöxtur kaupmáttar yfir nær allt tímabilið. Það er fyrst nú á síðustu ársfjórðungum sem vöxtur einkaneyslu hefur reynst meiri en aukning kaupmáttar,“ segir í Hagsjá Landsbankans.

Heildarfjárfesting jókst um 11,6 prósent á tímabilinu milli ára og var vöxturinn borinn upp af aukinni atvinnuvega- og íbúðafjárfestingu. Íbúðafjárfestingin jókst um 38 prósent en mikill vöxtur hefur verið í íbúðafjárfestingu á síðustu misserum.

Opinber fjárfesting jókst um 2,2 prósent sem er töluvert minni vöxtur en á öllum fjórðungum síðasta árs. Að meðaltali jókst fjárfesting hins opinbera um 22,6 prósent á síðasta ári.

Hagvöxtur er nokkuð meiri en opinberir spáaðilar hafa spáð að verði fyrir árið í heild. Spár liggja á bilinu 2,6-4,1 prósent og er Landsbankinn með hæstu spánna. Spáaðilar eru sammála að nokkuð muni hægja á hagkerfinu á næstu árum en til samanburðar var 3,6 prósent hagvöxtur í fyrra en 7,5 prósenta hagvöxtur árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK