Þrengja verðbilið í útboði Arion banka

Fjárfestar meta bankann á 132-136 milljarða króna.
Fjárfestar meta bankann á 132-136 milljarða króna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag er síðasti dagur fyrir fagfjárfesta til að leggja inn tilboð í frumútboði á hlutabréfum Arion banka. Bankinn verður tekinn til skráningar á markaði hér á landi og í Svíþjóð í lok vikunnar. Í gær lauk tilboðsfresti til handa almennum fjárfestum.

Í gær sendi Arion banki frá sér tilkynningu í tengslum við útboðið þar sem bent var á að seljendur, Kaupskil og Attestor Capital LLP, hefðu ákveðið að þrengja það verðbil sem gefið var í tengslum við viðskiptin. Þannig gerir útgefið verðbil ráð fyrir því að útboðsverðið verði á bilinu 73 til 75 krónur á hvern seldan hlut. Í upphaflegri lýsingu útboðsins var verðbilið mun breiðara eða frá 68 og upp í 79 krónur á hlut. Með tilkynningunni er bjóðendum m.a. gert kleift að aðlaga áður framlögð tilboð að útgefnu verðbili, en það er þeim heimilt samkvæmt útboðsreglum.

Miðað við hið nýútgefna verðbil virðist markaðurinn vera að verðmeta Arion banka á 132-136 milljarða króna. Eigið fé bankans nam ríflega 204 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs. Miðað við fyrrnefnt verðbil má því gera ráð fyrir að hlutir í bankanum muni skipta um hendur á margfaldaranum 0,65 til 0,67 af bókfærðu eigin fé. Það er allt að 19% lægri verðlagning, sé miðað við eigið fé, en lagt var upp með í viðræðum íslenskra lífeyrissjóða við Kaupskil þegar til stóð að sjóðirnir leystu til sín stóran hlut í bankanum. Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að Attestor íhugi að selja 3% hluta í félaginu í útboðinu. Attestor á 12,44% af útistandandi hlutafé í bankanum sem stendur. Sé mið tekið af lágmarksstærð útboðsins bendir því margt til þess að Kaupskil muni losa um að minnsta kosti 22% hlut í bankanum á föstudag. Félagið á nú 55,57% í bankanum.

Búið að fylla grunnstærðina

Í tilkynningu sem bankinn sendi svo frá sér um miðjan dag í gær kom fram að áskriftir hafi borist fyrir öllum þeim hlutum sem í boði eru skv. grunnstærð útboðsins auk stækkunarheimildar sem innbyggð er í því. Það þýðir að áskriftir hafi borist fyrir sem nemur að minnsta kosti 520,4 milljónum hluta. Í útboðinu var gert ráð fyrir að seljendur gætu losað um allt að 832,6 milljónir hluta í bankanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK