Hófu viðræður fyrir tveimur mánuðum

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka. mbl.is/Eggert

„Við höfum einsett okkur að stækka eignastýringuna og þetta er stórt skref í því,“ segir Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka en greint var frá því í morgun að Kvika og GAMMA Capital Mana­gement hefðu und­ir­ritað vilja­yf­ir­lýs­ingu um kaup og sölu á öllu hluta­fé GAMMA.

Ármann segir í samtali við mbl.is að viðræður á milli fyrirtækjanna hafi hafist fyrir um tveimur mánuðum. Hann segir að kaupin geri Kviku kleift að auka sérhæfingu og gæði í eignastýringu, sem og hagkvæmni. „Í eignastýringu þarf að ná ákveðinni stærð til að hún beri sig. Með samþættingu á rekstri fyrirtækjanna sjáum við fram á að ná hagræðingu.“ 

Aðspurður segir Ármann að engin áherslubreyting verði á starfsemi GAMMA. „Við munum skoða tækifæri til að vinna saman, bæði gagnvart kúnnum okkar og GAMMA, til þess að geta boðið fjölbreyttara vöruúrval. Annars er gert ráð fyrir að GAMMA starfi á óbreyttan hátt sem dótturfélag okkar.“

Í fréttatilkynningu um kaupin kemur fram að núverandi hluthafar GAMMA kaupi tilteknar eignir af félaginu. Ármann segir að um sé að ræða fáeina innlenda sjóði sem tengjast kjarnastarfsemi GAMMA ekki beint. 

Stærstu hluthafar GAMMA eru Gísli Hauksson með 30,97% og Agnar Tómas Möller með 29,7%. Þá eiga Ari, Björg og Kristín Fenger 9,99% hlut gegnum eignarhaldsfélagið Straumnes. Guðmundur Björnsson fer með 9,99% hlut og Valdimar Ármann forstjóri með 6,23%. Aðrir hluthafar eiga undir 5% hlut.

Kaupverðið veltur á árangursþóknunum GAMMA

Kaup­verðið nem­ur 3,75 millj­örðum króna en það er árangurstengt og getur þannig hækkað eða lækkað eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast á næstu misserum. 

„Þetta tengist óinnleystum árangursþóknunum í efnahagsreikningi GAMMA sem eru umtalsverð fjárhæð í heildina. Auk þess veltur þetta á árangri í rekstri og tekjusköpun á næstu misserum,“ segir Ármann. Eigið fé GAMMA í árslok 2017 var 2.054 milljónir króna en þá höfðu ekki verið tekjufærðar 600 milljónir króna kröfur á sjóði í rekstri félagsins vegna árangurstenginga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK