Innlánin mun kvikari en menn héldu

Guðni Aðalsteinsson.
Guðni Aðalsteinsson. mbl/Arnþór Birkisson

Guðni Aðal­steins­son, sem stýrði fjár­stýr­ingu Kaupþings banka árin fyr­ir hrun, segir í viðtali í miðopnu ViðskiptaMogg­ans að hraður vöxtur hafi verið ástæðan fyrir því að íslenskur bankarnir lentu snemma í vandræðum. 

„Það rann mikið fjármagn til íslensku bankanna. Fjármagni sem kemur inn fylgir sú hætta að það fari aftur út. Sérstaklega þegar það kemur hratt inn er alltaf möguleiki á að það fari líka hratt út,“ segir Guðni.

Guðni bendir á að flestir erlendir bankar séu með mikið af sinni fjármögnun í innlánum á heimamarkaði, sem sé yfirleitt traust. Íslensku bankarnir þurftu hins vegar að sækja erlenda fjármögnun, bæði í skuldabréfum og innlánum, vegna smæðar heimamarkaðar.

„Á þessum tíma lögðu alþjóðlegu lánsmatsfyrirtækin gríðarlega mikla áherslu á að íslensku bankarnir væru ekki mikið í skuldabréfaútgáfum, heldur reyndu fyrst og fremst að laða til sín innlán. Þau væru jú mun stöðugri fjármögnun en markaðsfjármögnun. Við sáum svo hvernig það fór. Það var innlánaflótti á erlendum netreikningum sem fyrst og fremst setti bankana á hliðina. Þetta virðist því hafa verið áhætta sem menn skildu ekki nógu vel, ekki einu sinni lánhæfismatsfyrirtækin, sem ættu að vera sérfræðingarnir.“

Auðvelt að vera vitur eftir á

Guðni segir eðlilegt að ræða mistök sem voru gerð í íslenska bankakerfinu í lánveitingum og fleira, en hann horfi fyrst og fremst á lausafjárþáttinn. „Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Menn áttu að spyrja sig: þetta fé hefur komið hratt inn í bankana og hvað gerist ef það fer hratt út? Verður ekki að leggja meira í varasjóð? Allir bankar halda úti einhvers konar varasjóði vegna lausafjár, en hefði ekki verið rétt að leggja meira til hliðar fyrir fjármagni sem er nýkomið inn? Bankarnir og lánshæfismatsfyrirtækin töldu sig skilja hegðun innlána á netreikningum en gerðu það ekki. Eftir á að hyggja hefði mátt taka meiri varúðarsjónarmið og segja: þangað til tiltekinn tími er liðinn leggjum við ákveðið hlutfall af þessu fjármagni til hliðar og notum ekki í bankastarfsemi. En það má alltaf vera vitur eftir á.“

Ekki komin næg reynsla á innlán á netinu

Guðni segir matsfyrirtækin hafa mikið litið til hlutfalls útlána sem eru fjármögnuð með innlánum. Útlán íslensku bankanna voru hins vegar aðallega fjármögnuð með skuldabréfum og hlutfallið því allt of lágt. „Matsfyrirtækin sögðu að fyrir banka í A-flokki þyrfti að gera miklu betur. Þess vegna fóru allir bankarnir í þessa innlánaaukningu, einfaldlega vegna þess að þeir töldu hana öruggari og til þess að fylgja fyrirmælum matsfyrirtækjanna. En svo kemur á daginn að þetta var allt öðruvísi en menn héldu. Þetta eru mjög kvikir peningar. Líkt og svo margt fleira skilja menn miklu betur hegðun þessara innlána núna en fyrir tíu árum. Það er alls ekki eins og íslensku bankarnir væru þeir einu sem skildu þetta ekki, því þetta var nokkuð sem var algerlega nýtt á markaðnum. Það var hreinlega ekki komin næg reynsla á innlán á netinu á alheimsvísu á þessum tíma.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK