Viðskiptastríð tveggja stærstu hagkerfa heims

AFP

Viðskiptastríð hófst á miðnætti milli tveggja stærstu hagkerfa heims, Bandaríkjanna og Kína. 

Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur lagt verndartolla á innflutning frá Kína. Verndartollarnir eiga að leggjast á kínverskar vörur að virði allt að 34 milljarða Bandaríkjadala og er talið að viðskiptastríð ríkjanna eigi eftir að hafa skaðleg áhrif á stöðu fyrirtækja og neytendur bæði í Bandaríkjunum og Kína.

Verndartollarnir tóku gildi á miðnætti að bandarískum tíma og samkvæmt frétt New York Times er fastlega gert ráð fyrir að kínversk yfirvöld svari innan skamms með sambærilegum álögum. Áður höfðu kínversk yfirvöld greint frá því að tollar yrðu lagðir á innflutning á til að mynda svínakjöt, sojabaunir og bíla frá Bandaríkjunum.

Í maí kom fram í Viðskiptamogganum að Kína á að minnka vöruskiptahalla Bandaríkjanna gagnvart Kína um 100 milljarða dala á tólf mánaða tímabili frá og með 1. júní 2018, og um 100 milljarða til viðbótar á tólf mánaða tímabili sem hefst 1. júní 2019.

Kína á líka, án tafar, að hætta öllum „markaðsbjagandi ríkisstuðningi“ sem er til þess fallinn að stuðla að umframframleiðslu. Kína á einnig að verja hugverkaréttindi betur og afnema hvers kyns skilyrði um notkun og eignarrétt á tækni þegar fyrirtæki starfa saman.

„Að auki fellst Kína á að [...] láta af aðgerðum sínum sem snerta [bandarísk] tækni- og hugverkaréttindi með innbrotum í tölvukerfi, viðskiptanjósnum, fölsunum og ólöglegri afritun. Kína samþykkir einnig að fara að lögum Bandaríkjanna um útflutningshöft.“

Enn fremur skal Kína draga til baka beiðni sína um að Alþjóðaviðskiptastofnunin íhlutist um tollaaðgerðir vegna hugverkaréttinda. „Til viðbótar mun Kína ekki grípa til neinna aðgerða í hefndarskyni [...] vegna aðgerða sem Bandaríkin hafa eða munu grípa til, þar á meðal ef Bandaríkin setja innflutningi frekari skorður [...] og Kína mun tafarlaust láta af öllum hefndaraðgerðum sem þegar standa yfir.“

Kína „mun ekki setja sig á móti, véfengja [...] eða hefna sín á Bandaríkjunum fyrir að takmarka fjárfestingar Kínverja í mikilvægum tæknigeirum í Bandaríkjunum, og í geirum sem varða þjóðaröryggi sérstaklega.“ En „bandarískum fjárfestum í Kína þarf að tryggja aðgang að markaðinum á sanngjarnan og skilvirkan hátt, og án mismununar, meðal annars með því að [...] afnema skorður á erlendri fjárfestingu og erlendu eignarhaldi.“

Hinn 1. júlí 2020 á Kína að draga úr tollum „á almennar framleiðslugreinar niður að því marki að þeir séu ekki hærri en“ sambærilegir tollar í Bandaríkjunum. Kína mun einnig opna markað sinn fyrir þjónustu og landbúnaðarvörum í samræmi við tilmæli Bandaríkjanna.

Framvinda samningsins verður vöktuð á ársfjórðungsgrundvelli. Ef Bandaríkin komast að þeirri niðurstöðu að Kína fullnægi ekki skilyrðum samkomulagsins leyfist þeim að leggja á tolla eða innflutningshöft. Kína „mun ekki vera á móti, véfengja eða grípa til nokkurra aðgerða“ gegn slíkum refsiaðgerðum Bandaríkjanna. Kína mun einnig draga til baka kvörtun sína til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um að það sæti ekki sömu meðferð og önnur markaðshagkerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK