Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkar

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 3,7% á síðustu 12 …
Verð á fjölbýli hefur hækkað um 3,7% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 9,3%. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli maí- og júnímánaðar. Hækkaði verð á sérbýli um 1,7% að samkvæmt tölum Þjóðskrár en verð á fjölbýli um 0,6%. Segir í Hagsjá Landsbankans að verð á fjölbýli hafi þar með hækkað um 3,7% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 9,3%.

Árshækkun húsnæðisverðs nemur 5,2% og hækkar nú í fyrsta skipti frá því í september 2017. Árshækkunin var 4,6% í maí.

Ár er nú liðið frá því að verðhækkanir á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu stöðvuðust allsnögglega, er samanburðurinn milli ára því farinn að miðast við mun rólegra ástand sem ríkti á seinni hluta ársins 2017 að því er segir í Hagsjánni.

12 mánaða tölurnar eru farnar að mjakast upp aftur, en hreyfingarnar eru þó frá mun lægri stöðu en hefur verið síðustu ár. Á það sérstaklega við um fjölbýli, en árshækkun fjölbýlis í maí var sú minnsta frá því í febrúar 2011.

„Væntingar hafa lengi staðið til þess að framboð á nýjum íbúðum myndi aukast. Þetta myndi líklega þrýsta vísitölu íbúðaverðs upp á við þar sem fermetraverð á nýjum íbúðum er jafnan hærra en á eldri íbúðum. Vaxandi hluti nýrra íbúða af viðskiptum ætti að öllu jöfnu að draga verð upp á við,“ segir í fréttinni.

Þegar litið er til fyrri hluta ársins 2017 og 2018 í verðsjá fasteigna Þjóðskrár sést að nýjar íbúðir voru um 10% af viðskiptum á árinu 2017 og um 23% í ár. Hlutfall nýrra íbúða hefur því aukist töluvert með tilheyrandi áhrifum á heildarmyndina.

„Nýjar íbúðir voru reyndar 15,4% dýrari pr. m2 en eldri íbúðir á árinu 2017 og 16,2% dýrari í ár. Nýjar íbúðir hækkuðu um 5,2% milli þessara tímabila þannig að nokkur munur er á verðþróun nýrra og eldri íbúða. Sé litið á verðþróunina frá áramótum hafa nýrri íbúðir hækkað verulega meira en þær eldri.“

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs var meðalstærð nýrra seldra íbúða 102 m2, en meðalstærð eldri íbúða 99 m2. Var munurinn mun meiri á sama tíma í fyrra. Þá voru  seldar íbúðir voru að meðaltal 121 m2 og eldri íbúðir 98 m2. Segir Landsbankinn tölurnar benda til þess að betur gangi að svara eftirspurn eftir minni íbúðum en undanfarin ár.

„Það er ætíð varasamt að einblína á niðurstöðu einstakra mánaða við mat á verðþróun á fasteignamarkaði. Þróunin allt frá miðju síðasta ári  sýndi að kaflaskil urðu á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í Hagsjánni.

„Síðustu tölur gætu verið  vísbendingar um að staðan sé að breytast. Ársbreyting fasteignaverðs er nú tekin að hækka eftir samfellda lækkun í langan tíma. Þá virðist sem framboð sé að aukast á minni íbúðum sem að öðru jöfnu ætti að þrýsta verði upp á við. Reyndar styður mismunandi verðþróun nýrra og eldri íbúða frá áramótum þá kenningu. Niðurstaðan gæti því verið sú að vænta megi nýrra verðhækkana, en örugglega í mun hægari takti en á undanförnum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK