Hlutabréf Fiat Chrysler hrynja í verði

Sergio Marchionne.
Sergio Marchionne. AFP

Lokað hefur verið fyrir viðskipti með bílaframleiðandann Fiat Chrysler í kauphöllinni í Mílanó eftir að hlutabréf félagsins lækkuðu um rúm 10% í kjölfarbirtingar uppgjörs í morgun og andlát forstjórans. 

Ákveðið var að loka fyrir viðskipti með bréf bílaframleiðandans klukkan 11:25 að íslenskum tíma en þá nam lækkun dagsins rúmlega 10,5%. Uppgjör Fiat Chrysler var birt fyrr í dag en samkvæmt því dróst hagnaður félagsins saman um 35% á öðrum ársfjórðungi, fór úr 1,155 milljörðum evra í 754 milljónir evra. 

Samkvæmt því drógust tekjur mjög saman í Kína í fjórðungnum, einkum vegna aukinnar samkeppni frá innlendum bílaframleiðendum. 

Fiat Chrysler hefur jafnframt lækkað afkomuspá fyrir árið í heild. Er nú gert ráð fyrir að tekjurnar nemi 115-118 milljörðum evra en fyrri spá gerði ráð fyrir 125 milljörðum evra í tekjur ársins. Eins að hagnaður (EBIT) verði mun minni, eða 7,5-8 milljarðar evra í stað 8,7 milljarða evra eins og fyrri spá hljóðaði upp á.

AFP

Í morgun var tilkynnt um andlát forstjóra FCA, Sergio Marchionne, en hann hefur undanfarna daga legið þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir aðgerð á öxl fyrr í mánuðinum. 

Stjórn Fiat Chrysler tilkynnti á sunnudag að Mike Manley, stjórnandi Jeep, tæki við af Sergio Marchionne . Ákvörðunina bar brátt að en Marchionne hafði stýrt Fiat í 14 ár, Chrysler frá 2009 og sameinuðu félagi Fiat og Chrysler frá 2014.

John Elkann, stjórnarformaður FCA, sendi starfsmönnum félagsins bréf á sunnudag þar sem hann færði þeim þau tíðindi að fylgikvillar sem komu upp eftir skurðaðgerðina hefðu orðið til þess að hinn 66 ára gamli Marchcionne gæti ekki snúið aftur til starfa.

 „Undanfarin 14 ár, fyrst hjá Fiat, svo hjá Chrysler og loks hjá FCA, hefur Sergio reynst vera besti forstjóri sem nokkur gæti óskað sér, og fyrir mig persónulega hefur hann verið lærifaðir, samstarfsfélagi og náinn vinur,“ skrifaði Elkann í bréfinu. „Leiðir okkar lágu saman á einu erfiðasta tímabilinu í sögu félagsins og það var með gáfum hans, þrautseigju og leiðtogahæfni sem það tókst að bjarga Fiat.“

Marchionne var einnig forstjóri Ferrari og vinnuvélaframleiðandans CNH. Hjá Ferrari hleypur Louis Camilleri í skarðið en hann hefur setið í stjórn ítalska sportbílasmiðsins og á einnig sæti í stjórn Philip Morris International. Hjá CNH tekur Suzanne Heywood við sem forstjóri en hún kemur úr stjórnendahópi eignarhaldsfélagsins Exor.

Að sögn FT hafði Marchionne í hyggju að láta af störfum hjá FCA í apríl á næsta ári en vera áfram forstjóri og stjórnarformaður Ferrari fram til ársins 2021. Marchionne er eignaður heiðurinn af að hafa snúið við rekstri Chrysler og Fiat og tókst honum m.a. að losa FCA við 12,5 milljarða dala skuldafjall á undanförnum fjórum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK