Libra selt til Hollands

Hollenska fjártæknifyrirtækið Five Degrees, sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir banka og fjármálafyrirtæki, hefur fest kaup á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Libra, sem upphaflega var stofnað árið 1996 og er leiðandi í smíði hugbúnaðar fyrir íslenskan fjármálamarkað.

Five Degrees var stofnað af tæknistjóranum Birni Hólmþórssyni, forstjóranum Martijn Hohman og rekstrarstjóranum Marianne Tijssen. Björn segir í samtali við ViðskiptaMoggann að íslenskir viðskiptavinir Libra muni njóta góðs af samruna fyrirtækjanna, meðal annars með möguleika á aukinni sjálfvirkni í bankaþjónustu. Þar séu Hollendingar komnir mun lengra en Íslendingar.

„Þar sem hægt hefur verið að millifæra beint á milli reikninga á Íslandi í 15 ár teljum við okkur vera með besta bankakerfi í heimi, en það er svo margt annað sem hægt er að gera vel. Það er hægt að sjálfvirknivæða bankana mun meira og ná fram miklum sparnaði. Bara það að hægt sé að breyta heimilisfangi á bankareikningi á netinu, opna fyrirtækjareikning heima í stofu, eða veita maka sínum aðgang að reikningi, sem er allt sem bankar í Hollandi geta gert í gegnum okkar kerfi, getur aukið skilvirkni mikið,“ segir Björn. „Ég er mjög spenntur að sjá hvernig íslenski markaðurinn mun taka á móti okkur.“

Starfsmenn Five Degrees eru um 150 talsins, þar af eru 30 á íslenskri starfsstöð félagsins. Á fimmta tug manna starfa hjá Libra. Fram að kaupunum á Libra hafði Five Degrees enga viðskiptavini á Íslandi.

„Ég og Martijn Hohman fengum hugmyndina að fyrirtækinu árið 2009. Við unnum báðir við Icesave-reikninga Landsbankans, og Hohman vildi taka þá hugmynd lengra og stofna netbanka. Það reyndist þó flóknara að fá bankaleyfi en við héldum, en aftur á móti sýndu margir mikinn áhuga á lausninni sem við smíðuðum. Þar með urðum við hugbúnaðarfyrirtæki. Við erum vel þekkt í Hollandi, þó að fáir þekki okkur á Íslandi.“

Viðskiptavinir Five Degrees eru fjórtán bankar í sex löndum, þar á meðal stærsti banki Kanada. Björn segir að tvöfalda eigi þann fjölda á næstu árum. 

Á síðasta ári var velta Five Degrees 12 milljónir evra, eða um 1,5 milljarðar íslenskra króna. Um 25% af félaginu eru í eigu Björns og fjögurra annarra lykilstjórnenda.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK