Skiptar skoðanir um framtíð Facebook

Virði Mark Zuckerberg féll um leið og dýfa varð hjá …
Virði Mark Zuckerberg féll um leið og dýfa varð hjá Facebook á hlutabréfamarkaði. AFP

Talið er að vandræði Facebook á undanförnum árum í tengslum við persónuvernd og öryggi persónuupplýsinga notenda sinna eigi stóran þátt í því að hlutabréf í Facebook tóku snarpa dýfu í gær eftir lokun markaða. Lækkuðu bréfin um u.þ.b. 20% og er hver hlutur nú metinn á um 175 Bandaríkjadali. Um 100 milljónir dala af virði fyrirtækisins þurrkuðust út í einu lagi.

Dýfa Facebook er ein sú snarpasta hjá nokkru fyrirtæki á markaði, en frá stofnun fyrirtækisins hafði Facebook vaxið blómlega, hratt og örugglega.

Takmörk fyrir frekari vexti?

Í gær gaf fyrirtækið út tilkynningu um að tekjur þess yxu mun hægar en spár hefðu gert ráð fyrir og notendafjöldi einnig. Talsmenn Facebook hafa sagt að ný nálgun fyrirtækisins í öryggismálum verði kostnaðarsöm og að takmörk séu fyrir frekari tekjuöflun í auglýsingasölu fyrirtækisins, en sala auglýsinga er helsta tekjulind fyrirtækisins.

Þar að auki hefur Facebook tilneytt ráðið til sín fleira starfsfólk til að sinna verkefnum sem gervigreind getur ekki enn leyst. Vonir fyrirtækisins um aukið vægi gervigreindar við síun óæskilegs efnis af efnisveitum fyrirtækisins hafa ekki gengið eftir.

Í kjölfar Cambridge Analytica-hneykslisins fyrr á þessu ári sýndu fjárfestar traust á fyrirtækinu. Á öðrum ársfjórðungi jókst hagnaður fyrirtækisins um 31% og var 5,1 milljarður dala. Tekjur jukust um 42% og voru 13,2 milljarðar. Virkum notendum Facebook fjölgaði um 11% og voru 2,23 milljarðar manna, þó ögn lægri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Skiptar skoðanir um stöðu Facebook

Sumir greinendur markaða hafa lýst þeim sjónarmiðum að vaxtartími samfélagsmiðla sé endanlega liðinn undir lok. Aðrir segja að dýfan í gær sé ekki svo skýr vísbending um hnignun samfélagsmiðlageirans.

Ross Gerber, greinandi hjá Gerber Kawasaki, sagði að fregnirnar væru til marks um kaflaskipti hjá Facebook og öðrum samfélagsmiðlafyrirtækjum. „Samfélagsmiðlarnir hafa náð hátindinum. Við lýstum því yfir á síðasta ársfjórðungi og nú er greining okkar að raungerast,“ sagði hann.

AFP

Aðrir segja of snemmt að afskrifa Facebook og vaxtarmöguleika fyrirtækisins. „Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið oft endurmetið spár sínar og áætlanir um hagnað og tekjur. Sagan sýnir að næsta ársfjórðung á fer fyrirtækið fram úr björtustu spám,“ sagði Gene Munster hjá Loup Ventures.

Richard Greenfield hjá BTIG Research sagðist hafa trú á Facebook þrátt fyrir bakslagið. „Facebook hefur sjálfviljugt valið að hala inn minni tekjum og setja skammtímagróða aftar í forgangsröðina til að fara í frekari framþróun,“ sagði hann í bréfi til viðskiptavini fyrirtækis síns.

Zuckerberg niður í sjötta sæti

Markaðsvirði Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, hríðféll í kjölfar hlutabréfadýfunnar. Fyrir skellinn var virði hans í hæstu hæðum, 82,4 milljarðar Bandaríkjadala, og var hann fjórði ríkasti maður heims. Nú vermir Zuckerberg sjötta sætið, metinn á um 67,7 milljarða Bandaríkjadala.

Væri Zuckerberg einungis metinn á þá 14,7 milljarða sem töpuðust af virði hans, myndi hann verma 88. sæti listans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK