Telur borga sig að leysa upp Heimavelli

Samkvæmt nýju verðmati Capacent borgar sig nú fyrir hluthafa stærsta leigufélags landsins, Heimavalla, að leysa félagið upp og selja eignir, eða fyrir fjárfesta að kaupa félagið og selja fasteignirnar.

Félagið var skráð í Kauphöll Íslands 24. maí sl. og voru hlutabréfin boðin fjárfestum á genginu 1,38-1,71 í frumútboði. Niðurstaða útboðsins var hins vegar talsvert lægri og hefur gengi bréfanna lækkað síðan og stendur nú í 1,18. Miðað við það er markaðsvirði félagsins um 13 milljarðar króna. Nýtt verðmat Capacent á félaginu hljóðar upp á gengið 1,64 krónur á hvern hlut.

Eins og Capacent bendir á í verðmatinu var bókfært virði eigin fjár um 17,7 milljarðar króna 31. mars sl. og gengi miðað við útgefna hluti á þeim tíma um 1,72. „Bókfært virði eigin fjár er því nálægt fimm milljörðum króna hærra en sem nemur markaðsvirði. Það samsvarar því að bókfært verð sé um 37% hærra en markaðsvirði eigin fjár.“

Drægi úr framboði og hækkaði verð leiguíbúða

Í samtali við Morgunblaðið segir Snorri Jakobsson hjá fjármála- og hagfræðiráðgjöf Capacent að ef kæmi til upplausnar félagsins myndi það draga mjög úr framboði á leiguhúsnæði, en staðan hafi væntanlega nú þegar latt félagið til að fjárfesta frekar í leiguhúsnæði.

„Upplausn félagsins myndi þar með leiða til hækkunar leiguverðs. Staðan er grafalvarleg þegar markaðsvirði leigufélags er langtum lægra en undirliggjandi verðmæti,“ segir Snorri.

Hann bendir á að mikil þversögn sé í umræðu um leigufélögin á markaðnum. Verkalýðsleiðtogar gagnrýni félögin fyrir meinta gróðahyggju, en ljóst sé að ef félögunum fatist flugið, þá myndi leiguíbúðum fækka og leiguverð hækka. „Maður áttar sig ekki á hvaða hagsmuni verkalýðsleiðtogar bera fyrir brjósti í þessum efnum.“

Hærri leigutekjur

Leigutekjur Heimavalla fyrstu þrjá mánuði ársins voru um 31% hærri en á sama tíma fyrir ári. Hagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og fjármagnsliði (NOI) var um 58% hærri. NOI var um 181 milljón króna hærri og hagnaður um 99 milljónum króna hærri en árið 2017.

Eins og Capacent kemur inn á hefur útleiguhlutfall félagsins hækkað um tæpt eitt prósentustig frá útgáfu skráningarlýsingar sem miðar við allt árið 2017. Fór hlutfallið úr 95,9% í 96,7%. „Athygli vekur hins vegar að útleiguhlutfall á Vesturlandi og Vestfjörðum versnar verulega frá því sem var árið 2017. Þar fór hlutfallið úr 95,2% í 64,4%. Hlutfallið hækkaði hins vegar á höfuðborgarsvæðinu um 1,1 prósentustig (í 98,8%) og á Austurlandi um 7,4 prósentustig (í 86,5%),“ segir í greiningunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK