„Þetta er mikill áfangi í þróun N1“

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 hf., segir kaupin á Festi …
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1 hf., segir kaupin á Festi hf. vera lið í að mæta breyttum aðstæðum á markaði. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum mjög ánægðir með að hafa náð sátt með eftirlitið um þetta mál,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, í samtali við blaðamann mbl.is, „þetta er mikill áfangi í þróun N1.“ Samkeppniseftirlitið heimilaði í gær kaup N1 hf. á Festi hf. og hafa hlutabréf N1 hækkað um 11,48% í kauphöllinni í dag. Heildarviðskipti í kauphöllinni nema rúmlega 600 milljónum króna það sem af er degi.

Eignarhaldsfélagið Festi hf. tók yfir Kaupás árið 2014 sem rak matvöruverslanirnar Krónuna, Nóatún og Kjarval auk verslananna ELKO, Intersport og vöruhótelsins Bakkinn. Nú hefur N1 hf. keypt Festi hf. og er stefnt að því að sameina höfuðstöðvar fyrirtækjanna.

„Nú setjum við í gang vinnu við að halda hluthafafundi í fyrirtækjunum um að sameina þau og gefa út hlutabréf í N1 sem er hluti af kaupverðinu. Svo í byrjun september byrjum við að sameina höfuðstöðvar og vinna að þeirri samleið sem stefnt er að,“ segir Eggert Þór spurður um næstu skref.

Hann segir eina þeirra hugmynda að baki kaupunum að samnýta fasteignir og innviði. Þá segir forstjórinn samnýtinguna geta gefið af sér verulegan ávinning fyrir fyrirtækið. „Við höfum gefið út að þetta séu um 500 til 600 milljónir á ári.“

Samruni háður skilyrðum

Heimild Samkeppniseftirlitsins felur í sér að við sameiningu sé brugðist við „þeirri röskun á samkeppni sem samruninn myndi annars leiða til.“ Í þessu samhengi er meðal annars kveðið á um að N1 samþykki að selja eldsneytisstöðvar til nýs keppinautar, að selja Kjarval á Hellu, auka aðgengi end­ur­selj­enda að birgðarými, dreif­ingu og eldsneyti í heild­sölu og tryggja sam­keppn­is­legt sjálf­stæði fé­lags­ins.

Sala eldsneytisstöðva mun fela í sér sölu á dælustöðvum undir vörumerkinu Dælunni við Fellsmúla í Reykjavík, Hæðasmára í Kópavogi og Staldrið í Reykjavík.

Markaðurinn er að breytast

Spurður hvort stefnt sé að samstilltum rekstri eldsneytissölu og dagvöruverslana sambærilegt og í tilfelli Costco, segir Eggert Þór þessa samnýtingu ekki boða að sameinaður verði rekstur dagvöruverslana og bensínstöðva.

„Við munum halda fyrirtækjunum aðskildum, þetta verða sér vörumerki hvert og eitt,“ segir hann og bætir við að eftir stendur að ræða stöðu mála við sveitarfélögin sem munu hafa um það að segja hvernig farið verður að því að samnýta lóðir og fasteignir sameinaðs félags.

Rekstrarumhverfi olíufélaga er að breytast mikið að sögn Eggerts Þórs og vísar hann meðal annars til rafmagnsbíla og nýrri eyðsluminni bíla. „Við erum að bregðast við því að markaðurinn er að breytast,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið standi sterkar með fyrirhuguðum breytingum.

Hlutabréf N1 hækkuðu ört í dag í kjölfar þess að …
Hlutabréf N1 hækkuðu ört í dag í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið heimilaði kaup fyrirtækisins á Festi. Ljósmynd/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK