Rekstrarumhverfið áhyggjuefni

Icelandair tapaði 2,7 milljörðum króna í apríl, maí og júní.
Icelandair tapaði 2,7 milljörðum króna í apríl, maí og júní. Ljósmynd/Icelandair

„Það er greinilegt af þessum tölum að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja er ekki eins gott og áður,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, spurður út í ársfjórðungsuppgjör Icelandair sem var gefið út í gær. „Þau standa einfaldlega verr að vígi.“

Í uppgjörinu fyrir annan ársfjórðung 2018 kom fram að fyrirtækið hefði tapað 2,7 milljörðum króna á tímabilinu. Bætist það ofan á 3,5 milljarða tap fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi.

Konráð tekur dæmi um stöðuna fyrir fjórum árum en síðan þá hefur gengi krónunnar styrkst um 25% gagnvart evru og tæp 9% gagnvart bandaríkjadal, og hefur sú hækkun komið útflutningsfyrirtækjum illa.

Hagræðing helsta ráðið

Yfirskrift uppgjörsins er Krefjandi árferði en þar eru hækkandi olíuverð og samkeppni nefnd sem dæmi um áskoranir sem flugfélagið stendur frammi fyrir. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um 44% frá sama tíma í fyrra en ekki hefur verið unnt að velta þeirri hækkun út í verðlag vegna síharðnandi samkeppni um flug til og frá landinu, að því er fram kemur í uppgjörinu. 27 flugfélög fljúga til Íslands nú í sumar og hafa aldrei verið fleiri.

Konráð Guðjónsson.
Konráð Guðjónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður til hvaða ráða fyrirtæki geti gripið segir Konráð að hagræðing í rekstri sé helsta ráðið. Reynslan sýni þó að það sé eitthvað sem gerist hægt og bítandi. „Framleiðnivöxtur kemur ekki í stökkum heldur kemur hann yfir nokkur ár, en við sjáum kannski stökk á milli áratuga.“

75% lækkun frá 2016

Hlutabréf í Icelandair hafa lækkað um tíu prósent í dag vegna uppgjörsins og er virði fyrirtækisins nú 75% lægra en það var í ársbyrjun 2016.

Á mánuðunum þremur flugu 1.115.000 farþegar með Icelandair, tveimur prósentum fleiri en ári áður. Á sama tíma jókst framboð flugsæta um 7% og versnaði sætanýting því og var 80,3%.

Markaðurinn yfir Atlantshafið, milli Bandaríkjanna og meginlands Evrópu, vegur þyngst hjá fyrirtækinu og stendur fyrir 56% af heildarfarþegafjölda, samanborið við 13% frá Íslandi og 26% til Íslands utan frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK