Englandsbanki hækkar stýrivexti

Mark Carney seðlabankastjóri segir hér frá vaxtaákvarðanatöku Englandsbanka í dag.
Mark Carney seðlabankastjóri segir hér frá vaxtaákvarðanatöku Englandsbanka í dag. AFP

Englandsbanki hækkaði í dag stýrivexti um fjórðung úr prósentu, í 0,75%, til þess að stemma stigu við verðbólgu. Hafa þeir ekki verið hærri í áratug eða frá því í fjármálahruninu.

Allir níu nefndarmenn peningastefnunefndar Englandsbanka voru einhuga um hækkunina og fylgjandi 0,25% hækkun. Að því sem fram kemur í frétt Financial Times bjóst markaðurinn við hækkuninni.

Pundið styrktist fyrst um sinn eftir tilkynninguna en féll síðan um hálft prósent gagnvart Bandaríkjadal. Stendur það núna í 1,305 dölum sem er lægra en það var fyrir tilkynninguna.

Mark Carney, seðlabankastjóri Englands, segir að lækkun stýrivaxta í kjölfar Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, hafi virkað en nú sé tími til kominn að stemma stigu við verðbólgu í stað þess að styðja við atvinnuvöxt.

„Áætlunin virkaði,“ sagði Carney. „Atvinnuþátttaka hefur aldrei verið meiri. Það er varla pláss fyrir fleiri. Raunlaun fara hækkandi og utanaðkomandi verðþrýstingur hefur hjaðnað,“ sagði Carney.

Ýmsir hagfræðingar hafa gagnrýnt Englandsbanka fyrir hækkunina og segja breskan efnahag enn líða fyrir þá óvissu sem ríkir um útkomuna í samngingaviðræðunum um Brexit.

„Ákvörðunin um að hækka stýrivexti virðist vanhugsuð í ljósi þess að efnahagurinn er ansi stirður," sagði Suren Thiru, aðalhagfræðingur breska verslunarráðsins, við Financial Times.

„Útkomumöguleikarnir varðandi Brexit eru margir. Margir þeirra krefjast hins vegar jafnhárra stýrivaxta og ákveðið var í dag,“ sagði Carney og bætti því við að það væru mistök að bíða eftir algjörri vissu um málefni Brexit þegar kemur að vaxtaákvarðanatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK