Fyrstu himnasendingarnar á heimsvísu

Helgi og Maron, stofnendur aha.is.
Helgi og Maron, stofnendur aha.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru mjög margir að reyna þetta en við erum eina fyrirtækið enn þá sem hefur fengið leyfi til þess að vera með svona verkefni innanbæjar. Google er að vinna svona verkefni í Ástralíu utanbæjar og það er fyrirtæki í Þýskalandi sem fékk leyfi til að fljúga innanbæjar í tvo daga. Svo er Amazon að vinna að svipuðu verkefni líka utanbæjar,“ segir Maron Kristófersson, annar stofnenda aha.is.

Aha.is hefur nú fengið leyfi til að bjóða upp á nýjar flugleiðir og nýja tækni þar sem vörum er slakað niður úr drónanum beint til viðskiptavinarins.

„Við byrjuðum að skoða þetta árið 2014. Við fórum alltaf út í þetta með það langtímamarkmið í huga að finna ódýrari lausn en að senda með bílum. Þetta gekk upp og ofan til að byrja með, það var margt sem við lærðum og margt sem hreinlega gekk ekki. Svo kemur þetta skref af skrefi,“ segir Maron.

Nýir afhendingastaðir aha.is með drónum.
Nýir afhendingastaðir aha.is með drónum. Ljósmynd/aha.is

Veðrið sett strik í reikninginn

Aha.is bauð í fyrra upp á fyrstu drónasendingarnar á heimsvísu innan borgarmarka og fékk fyrr í sumar aukningu á leyfi starfseminnar en sökum veðurs hefur það enn ekki komið að notum.

„Við fengum þessa aukningu á leyfinu í byrjun júní og það hefur rignt nánast linnulaust síðan við fengum það í hendurnar. Eitt af þeim verkefnum sem við erum að vinna að með Flytrex er að leysa þetta vandamál. Ég á von á því að við munum bæði geta flogið í meiri vindi og rigningu innan skamms.“

Þá sé það draumasýn fyrirtækisins að geta flogið vörum með drónum 310-330 daga á ári miðað við íslenskt veðurfar. „Það ætti alveg að vera hægt. Við erum búin að skoða veður tíu ár aftur í tímann á klukkutíma fresti þannig að það er alveg mögulegt. En það mun taka einhvern tíma. Þetta gerist ekkert allt á einni nóttu.“

Spara kostnað og tíma

Samkvæmt Maroni getur flutningur á vörum með drónum orðið allt að sjö sinnum ódýrari en flutningur með ökutækjum auk þess sem drónarnir eru mikið umhverfisvænni.

„Hver dróni getur hæglega flutt fimm til sex sendingar á klukkutíma. Þar sem kerfið er sjálfstýrt er tæknilega ekkert því til fyrirstöðu að það séu margir drónar á flugi samtímis og einn að stjórna þeim. En eins og er erum við bara með einn á lofti í einu og erum með mannskap sem er að fylgjast vel með á meðan.“

Maron með vörudróna.
Maron með vörudróna. Árni Sæberg

„Þegar fram líða stundir þá kemst varan miklu hraðar til neytenda. Þetta er miklu umhverfisvænni aðferð til þess og í framtíðinni verður þetta mun ódýrara en að senda með bíl. Eins og er kostar þetta okkur aðeins meira á sendingu. Ef það verður þétt nýting á þessu verður þetta ódýrara. Markmiðið er að ná sendingakostnaði verulega niður. Í framtíðinni ætti þetta að geta verið fimm til sjö sinnum ódýrara en að senda með bíl.“

Öryggisbúnaður ef eitthvað bregst

Að sögn Marons hefur fyrirtækið prófað og þróað flug drónanna vel og ítarlega til þess að tryggja flugöryggi sem og öryggi borgara.

„Við erum með tryggingar upp á tvær milljónir dollara fyrir hvern dróna. Það er enn þá ekki til það mikið af gögnum en ég og við sem höfum komið að þessu erum nokkuð sannfærð um að það sé öruggara að fljúga vörum með dróna en að keyra bíl.“

„Það sem hefur mest farið úrskeiðis í þessum drónaheimi er að menn hafa misreiknað sig með rafhlöður og annað og það sem gerist þá er að þessir drónar eru búnir öryggisbúnaði og lenda mjög hægt á jörðinni. Ég held að það sé hægt að fullyrða það að af svona drónum hefur ekki orðið eitt einasta banaslys enn þá í heiminum,“ segir Maron.

Þá segir Hrafn Oddsson, eftirlitsmaður flugrekstrardeildar hjá Samgöngustofu, að stýribúnaður dróna aha.is sé að minnsta kosti tvöfaldur svo að ef önnur aðferðin bilar sé hin í lagi.

„Þeir eru búnir að sannfæra okkur með þeim gögnum sem þeir hafa sýnt að þetta er eins öruggt og það getur orðið. Flugmennirnir eru allir reynslumiklir og hafa setið námskeið þar sem farið er yfir ýmsa þætti varðandi flug og flugreglur. Flugumferðastjórinn á Reykjavíkurflugvelli, lögreglan og borgaryfirvöld eru upplýst um þetta. Öryggið er tryggt með þessu, góðum tækjum, góðri þjálfun og góðum samskiptum á milli þeirra sem málið varðar.“ 

Myndband af „himnasendingu“ aha.is má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK