Útlán sjóðanna ná jafnvægi

Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga sinna námu rétt ríflega 9 …
Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga sinna námu rétt ríflega 9 milljörðum í júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga sinna námu rétt ríflega 9 milljörðum í júní síðastliðnum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands. Er þetta í fyrsta sinn sem stofnunin birtir þessar tölur að teknu tilliti til uppgreiðslna og umframgreiðslna.

Útlánin í júní voru ríflega milljarði lægri en í maí síðastliðnum þegar þau námu 10,1 milljarði króna. Á fyrstu sex mánuðum ársins lánuðu sjóðirnir í formi nýrra sjóðfélagalána, að teknu tilliti til fyrrgreindra atriða, 47,5 milljarða króna. Er það litlu lægri fjárhæð en á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 þegar þeir lánuðu 48,8 milljarða króna. Er það langhæsta fjárhæð sem þeir hafa lánað á fyrri helmingi árs og raunar aðeins síðari helmingur árs í fyrra sem slær honum við. Þá lánuðu sjóðirnir 49,3 milljarða.

Samdrátturinn á fyrstu sex mánuðum þessa árs, samanborið við sama tímabil í fyrra nemur 2,8%. Tölurnar benda til þess að útlánaaukning sjóðanna sé nú að ná jafnvægi en í fyrra jukust þau um 72% yfir fyrrgreint tímabil frá fyrra ári, 2016. Margt virtist því benda til þess að sjóðirnir nálguðust útlánatölur viðskiptabankanna þriggja, sem borið hafa höfuð og herðar yfir sjóðina á umliðnum árum á lánamarkaði sem byggist á veðtöku í íbúðarhúsnæði.

Það sem af er þessu ári hafa bankarnir veitt lán til heimilanna í landinu, með veði í húsnæði, 59,2 milljarða króna umfram upp- og umframgreiðslur. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs námu sömu útlán hins vegar 53,1 milljarði króna. Nemur aukningin á vettvangi bankanna því 11,5% milli ára. Í fyrra juku þeir hins vegar útlánin frá fyrstu sex mánuðum ársins 2016 um 77%. Fóru úr 30 milljörðum króna í fyrrnefndan 53,1 milljarð.

Þessar tölur vitna um að bilið milli bankanna og lífeyrissjóðanna er aftur tekið að aukast eftir að stappaði nærri í fyrra að sjóðirnir stæðu jafnfætis bönkunum.

Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK