Fjölga tengitímum Icelandair í Keflavík

Icelandair mun fjölga tengitímum í Keflavík og verða þeir á …
Icelandair mun fjölga tengitímum í Keflavík og verða þeir á næsta ári fjórir í stað tveggja áður. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Icelandair mun frá og með maí á næsta ári breyta leiðarkerfi sínu og bæta við brottfarartímum frá Keflavík þannig að boðið verður upp á flug til borga í Evrópu klukkan 10.30 að morgni og til borga í Norður-Ameríku klukkan 20.00 að kvöldi. Bætist þetta við núverandi tengitíma sem eru snemma morguns og síðdegis.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að tilgangur breytinganna sé að „skapa félaginu ný tækifæri til vaxtar, bæta þjónustu við farþega og auka sveigjanleika. Ekki er svigrúm til að bæta við flugi eða farþegum á Keflavíkurflugvelli á háannatímanum að morgni og síðdegis, en á nýju brottfarartímunum er nægt rými í flugstöðinni, við brottfararhlið og á flughlöðum.“

Haft er eftir Boga Nils Borgasyni, forstjóra Icelandair group, að þessi breyting hafi verið í undirbúningi um hríð og sé áfangi í framtíðarvexti félagsins. Þá segir hann þetta geta aukið þægindi við að velja fleiri tímasetningar til að fljúga út. „Fyrir Íslendinga getur t.d. verið þægilegt að þurfa ekki að vakna snemma á morgnana fyrir Evrópuflug, og einnig að fljúga vestur um haf að kvöldi til. Við erum jafnframt að horfa til þess að laga það ójafnvægi sem var í leiðakerfinu á árinu 2018.“

Er breytingin einnig sögð tengjast endurnýjun á flugflota Icelandair, en félagið hefur þegar tekið á móti þremur Boeing MAX-þotum og mun taka á móti sex nýjum snemma á næsta ári. Fram kemur í tilkynningunni að endanleg flugáætlun fyrir 2019 liggi ekki fyrir, en að unnið sé að því að greina hvort nýir áfangastaðir bætist við og hvort hætt verði flugi á einhvern af núverandi áfangastöðum.

Nýju tengibankarnir verða nokkuð minni en aðaltengibankar félagsins í dag. Boðið verður upp á flug til Evrópuborga um klukkan 10.30 og flugvélar sem koma frá sömu borgum munu lenda á Keflavíkurflugvelli um kl. 18.30. Þær borgir í Evrópu sem búið er að ákveða að fari inn í þennan tengibanka eru Frankfurt, München, Amsterdam, Kaupmannahöfn, Stokkhólmur, Ósló, París, Brussel, Berlín, Hamborg og Zürich. Einnig verður áfram flogið til þessara borga á sama tíma og undanfarin ár. Flogið verður til Norður-Ameríkustaða um kl. 20.00 og flugvélar sem koma frá þeim borgum muni lenda á Íslandi um kl. 09.30 að morgni. Borgirnar eru Boston, New York, Washington, Chicago, Minneapolis og Toronto.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK