Hvenær er verið að segja okkur satt?

Hægt var að kaupa ódýra flugmiða á heimasíðu Primera alveg …
Hægt var að kaupa ódýra flugmiða á heimasíðu Primera alveg þar til yfir lauk. Ljósmynd/Af vef Primera Air

„Það er kostulegt að horfa aðeins nokkrar vikur til baka og sjá hve yfirlýsingaglaðir forsvarsmenn Primera Air hafa verið, þrátt fyrir vandræðin,“ segir Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is, og rifjar upp nýleg ummæli Andra Más Ingólfssonar, eiganda og forstjóra Primera Air Travel Group, um gríðarlegan vöxt félagsins, fyrirætlanir í lággjaldaflugi og nýlegar breytingar á rekstrinum í takt við þær fyrirætlanir. Hann veltir því meðal annars fyrir sér hvort fjölmiðlar hafi verið nýttir í að auglýsa félagið fyrir fjármögnunaraðilum, en tilkynnt var um gjaldþrot þess fyrr í dag.

„Primera Air breytti um kúrs í vor og fór að fljúga þetta lággjaldaflug sitt frá London og París til Norður-Ameríku. Svo átti að bæta við flugi frá Berlín, Brussel, Frankfurt og Madríd og tiltölulega nýbúið að tilkynna um þær viðbætur. Þetta hefur allt verið gert á veikum forsendum. Flugfélagið var kannski alls ekkert í stakk búið til þess að fara í þessar miklu breytingar sem gerðar voru á rekstrinum.“

Kristján bendir á að hér áður hafi umsvif félagsins einskorðast við leiguflug fyrir ferðaskrifstofur, til dæmis fyrir Heimsferðir frá Íslandi, en síðan hafi skyndilega verið farið í þær breytingar að fljúga áætlunarflug.

„Þrátt fyrir að verðmæti félagsins hafi verið fært til bókar sem 0 krónur í ársreikningi eignarhaldsfélagsins PAHolding fyrir árið 2017 og að endurskoðendur hafi efast um rekstrarhæfi flugfélagsins, þá er engu að síður keyrt á þessar miklu breytingar 2018,“ segir Kristján og vísar til fréttar sem birtist á vef Túrista í gær.

„Á sama tíma eru forsvarsmenn Primera Air mjög brattir í fjölmiðlum sem gerir það að verkum að fólk efast ekki um styrk flugfélagsins og kaupir miða.“

Spyr hvort fjölmiðlar séu notaðir til auglýsinga

Skemmst er að minnast þess að í viðtali við mbl.is í lok ágúst greindi eigandi Primera Air frá því að félagið hygðist tvöfalda flugvélaflota sinn fyrir árslok 2019 og að ellefu nýir áfangastaðir yrðu kynntir á næstunni. Sagði hann félagið vera í einstakri stöðu til að fara inn á stóru flugleiðirnar yfir Atlantshafið með því að nota viðskiptamódel sem væri gjörólíkt því sem WOW air og Icelandair notuðust við. Þá tók hann sérstaklega fram að búið væri að fjármagna þetta allt.

„Maður veltir fyrir sér hvenær forsvarsmenn flugfélaga og annarra fyrirtækja eru að segja okkur satt. Þetta dæmi af Primera Air segir okkur að við verðum að vera mjög gagnrýnin. Þegar menn eru svona brattir þá má spyrja hvort þeir séu að nýta fjölmiðla til að auglýsa sig gagnvart bankafólkinu og fjármögnunaraðilunum, þá á kostnað neytenda. Því það eru þeir sem kaupa farmiðana.“

Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is.
Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túristi.is. Ljósmynd/Aðsend

Kristján bendir á að flestir sem hafi keypt flugmiða hjá Primera Air fái þá líklega endurgreidda á einhvern hátt, en þar með sé bara hálf sagan sögð. Þó að miðarnir séu endurgreiddir standi eftir hótelbókanir, bílaleigubílar og fleira sem kannski ekki sé hægt að breyta. „Fólk situr þá engu að síður eftir með ferðaplön sem hafa riðlast. Fólk er kannski búið að bóka sjálft hótel, því það er ekki hægt að horfa á Primera Air sem bara einhvern arm fyrir Heimsferðir. Þetta er miklu meira því flugfélagið hefur bætt verulega í að selja farmiða sjálft. Það eru eflaust þó nokkuð margir Íslendingar búnir að kaupa miða með Primera til Tenerife í vetur, ekki í gegnum Heimsferðir, heldur bara á eigin vegum.“

Buðu lág fargjöld þrátt fyrir að vita í hvað stefndi

Kristján segist hafa haft veður af því um helgina að staða Primera Air væri virkilega slæm og birti hann til að mynda frétt um ársreikninga félagsins í gær, þar sem í ljós kom að verðmæti þess væri 0 krónur, líkt og áður sagði. Á sama tíma benti hins vegar ekkert til þess í sölu á flugmiðum, að farið væri að halla undan fæti.

„Ég skoðaði heimasíður Primera í ýmsum löndum til að athuga hvort þeir væru að hækka verð á fargjöldum upp úr öllu valdi til að koma í veg fyrir að fólk væri að bóka, eins og til dæmis Air Berlin gerði áður en þeir fóru í þrot. En ég sá ekkert slíkt hjá Primera Air. Það var enn hægt að fá mjög ódýr fargjöld, til dæmis frá Íslandi til Lundúna í febrúar næstkomandi undir 4.000 krónum. Það var því ekki hægt að sjá það á heimasíðunni að félagið væri á leið í þrot.“

Strax farið að tala um þúsundir strandglópa

Kristján segir að áhrif gjaldþrots Primera Air verði þó mun meiri í Skandinavíu en á Íslandi, þar sem ferðaskrifstofur Primera Travel group eru umsvifamiklar. „Það sést á umræðunni í Danmörku í dag að menn eru strax farnir að rifja upp fleiri áföll sem hafa átt sér stað síðastliðinn áratug. það er strax farið að tala um þúsundir strandaglópa.“

Í frétt á vef SVT kemur til að mynda fram að um 750 sænskir farþegar Primera Air séu strandaglópar á Ítalíu, Grikklandi og Spáni. Þá segir á vef DR að Primera hafi flutt um 278 þúsund farþega í gegnum Kastrup á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK