Þjóðverja vantar fleira fólk

AFP

Þýsk yfirvöld ætla að gera innflytjendum auðveldara fyrir að flytja til landsins þar sem mikill skortur er á vinnuafli. Má þar nefna að veita fólki sem þegar hefur sótt um hæli í landinu heimild til dvalar í lengri tíma.

Samkomulagið var undirritað í nótt eftir maraþonviðræður milli ríkisstjórnarflokkanna þriggja um nýja stefnu í innflytjendamálum vegna skorts á vinnuafli.

Fólk sem hefur sótt um hæli í Þýskaland en hefur ekki fengið dvalarleyfi og bíður þess að fá niðurstöðu um hvort þeim verði vísað úr landi getur átt von á því að fá að dvelja áfram í Þýskalandi. Til þess þarf fólk að sýna fram á að það hafi fengið vinnu og aðlögun að þýsku samfélagi gangi vel.

Íbúar ríkja utan Evrópusambandsins, þar á meðal matreiðslumenn, málmiðnaðarmenn eða tæknimenntað fólk, geta einnig komið til Þýskalands í sex mánuði og leitað fyrir sér með vinnu. Eins verða þeir að sýna fram á þekkingu í þýsku að loknum reynslutíma. 

Í samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna kemur fram að vinnuafl ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, hálfur milljarður, nægi ekki til þess að halda hjólum atvinnulífsins í Þýskalandi gangandi.

Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer.
Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer. AFP

Horst Seehofer innanríkisráðherra sagði á blaðamannafundi áðan að það sé þess vegna sem Þjóðverjar þurfi að fá fólk frá öðrum ríkjum til starfa. Lagt verður fram frumvarp til laga á næstunni vegna þessa. 

Innflytjendamál eru deilumál víða í Þýskalandi, einkum austurhluta landsins en hátt í milljón flóttamanna hefur komið til Þýskalands undanfarin ár á flótta undan stríðinu í Sýrlandi og Írak.  Alternative für Deutschland (AfD) er orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn en eitt helsta stefnumál flokksins er að berjast gegn útlendingum. 

Ríkisstjórnin tekur fram að nýju reglurnar séu ekki gerðar til þess að gera fólki sem hefur verið synjað um hæli kleift að setjast að í Þýskalandi. Það er með því að breyta umsókn sinni í að fá atvinnuleyfi í landinu.

Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki í Þýskalandi og kvarta fyrirtæki í þessu stærsta hagkerfi Evrópu yfir skorti á vinnuafli sem hamli hagvexti. Í september vantaði 338.200 starfsmenn til starfa í atvinnugreinum sem krefjast stærðfræðimenntunar, tölvunarfræðinga, í náttúruvísindum og öðrum tæknigreinum. 

Ráðherra efnahagsmála, Peter Altmaier, segir að nýju reglurnar muni koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum vel en þau hafa liðið fyrir samkeppni við stærri fyrirtæki sem sópa til sín hæfasta fólkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK