„Hlakka til að ferlið klárist“

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég horfi fram á veginn og hlakka til að ferlið klárist þannig að við getum farið að vinna að því sem skiptir máli,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga.

Búið er að gera kaupsamninga um allar eignir sem skilyrði Samkeppniseftirlitsins ná til vegna kaupa Haga á Olís og fast­eigna­fé­lag­inu DGV hf.

Á meðal skilyrða er að samrunaaðilar skuldbinda sig til að selja rekstur og fasteignir Haga í Faxafeni 14 þar sem verslun Bónuss er starfrækt. Einnig skuldbinda þeir sig til að selja rekstur og fasteignir þjónustustöðva Olís við Háaleitisbraut 12 og Vallargrund 3, verslana Bónuss á Hallveigarstíg 1 og Smiðjuvegi 2, rekstur verslunar Olís í Stykkishólmi, rekstur og aðstöðu ÓB-stöðva við Starengi 2, Kirkjustétt 2-5 og Knarrarvog 2 í Reykjavík.

Að sögn Finns eru samningarnir til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en svokallaður óháður kunnáttumaður fer yfir samningana og gefur álit á þeim. Ferlinu lýkur þegar óháði kunnáttumaðurinn hefur farið yfir sína vinnu og eftirlitið farið yfir hans álit. Samkeppniseftirlitið skipaði kunnáttumanninn eftir tillögu frá Högum.

Hagar vonast til að niðurstaðan verði ljós um miðjan nóvember.

Bónus.
Bónus. mbl.is/Golli

Fréttablaðið greindi í morgun frá því að Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sports Direct og sonur Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla, sé að ganga frá kaupum á þremur verslunum Bónuss sem tilgreindar eru í skilyrðum Samkeppniseftirlitsins. Fréttablaðið hefur einnig heimildir fyrir því að 365 miðlar hafi selt all­an hlut sinn í Sýn fyr­ir tæpa tvo millj­arða króna og keypt ríf­lega þriggja pró­senta hlut í Hög­um fyr­ir hátt í 1,8 millj­arða króna. 

Aðspurður vill Finnur ekkert tjá sig um söluna á umræddum verslunum Bónuss og ekki heldur Sigurður Pálmi sem mbl.is ræddi við fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK