Icelandair ræðir við lánardrottna

Þota Icelandair.
Þota Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Icelandair Group hefur í dag viðræður við fulltrúa skuldabréfaeigenda sem ráða yfir meira en 50% af útgefnum óverðtryggðum skuldabréfum félagsins sem eru að nafnvirði 190 milljónir Bandaríkjadala, 21,5 milljarðar króna. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair og vísað til uppfærðrar spár Icelandair Group sem birt var 27. ágúst um hagnað félagsins af reglulegri starfsemi (EBITDA - áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta).

Viðræðurnar eru, samkvæmt tillkynningu, tilkomnar vegna þess að mögulegt er að Icelandair geti ekki uppfyllt kvaðir sem koma fram í skilmálum skuldabréfanna varðandi hlutfall heildar vaxtaberandi skulda.

„Í ljósi hinnar uppfærðu EBITDA-spár Icelandair Group er félagið nú að meta þá möguleika sem eru í stöðunni, til að mynda að óska eftir tímabundinni undanþágu frá hinum fjárhagslegu kvöðum frá eigendum skuldabréfanna, breytingum á skilmálum skuldabréfanna eða uppgreiðslu skuldabréfanna að hluta eða uppgreiðslu annarra skulda.

Þrátt fyrir möguleika á því að kvaðir skuldabréfanna um hlutfall heildar vaxtaberandi skulda verði ekki uppfylltar þá nam handbært fé Icelandair Group 237 milljónum USD 30. júní sl. Eigið fé nam 530 milljónum USD og eiginfjárhlutfall félagsins var 32%.

Bókfært verð varanlegra rekstrarfjármuna nam 673 milljónum USD og fyrirframgreiðslur inn á nýjar flugvélar í efnahagsreikningi námu 143 milljónum USD. Á sama tíma nam heildarfjárhæð vaxtaberandi skulda 343 milljónum USD en þar af voru 121 milljón USD veðtryggðar,“ segir í tilkynningu Icelandair. 

Icelandair Group hefur ráðið DNB Bank Markets sem fjárhagslegan ráðgjafa félagsins vegna viðræðna við lánardrottna.

Tilkynning til kauphallarinnar

Líkt og fram kom í tilkynningu til kauphallarinnar 27. ágúst eru horfur í rekstri Icelandair Group á árinu 2018 lakari en félagið hafði gert ráð fyrir. Miðað við fyrirliggjandi forsendur áætlar félagið að EBITDA ársins 2018 verði á bilinu 120-140 milljónir Bandaríkjadala.

„Þrátt fyrir að uppgjöri sé ekki lokið er ljóst að afkoma annars ársfjórðungs verður lakari en áður hafði verið áætlað. Talsvert rask hefur átt sér stað í flugáætlun Icelandair undanfarnar vikur, seinkun á innleiðingu flugvéla, veðurfar o.fl. hafa valdið auknum kostnaði auk þess sem tekjur hafa tapast,“ segir meðal annars í tilkynningunni en Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði starfi sínu lausu sem for­stjóri Icelanda­ir Group þennan sama dag. Bogi Nils Boga­son, fjár­mála­stjóri fé­lags­ins, tók tíma­bundið við starfi for­stjóra á meðan stjórn mun finna fé­lag­inu for­stjóra til framtíðar.

Samhliða frumvinnu við drög að uppgjöri annars ársfjórðungs hefur félagið greint forsendur afkomuspár fyrir síðari hluta ársins. Spár félagsins um hækkandi meðalverð á síðari hluta ársins hafa hingað til ekki gengið eftir. Þetta gerist þrátt fyrir að olíuverð hafi hækkað um 50% á seinustu 12 mánuðum. 

Af þeirri ástæðu hefur félagið ákveðið að lækka tekjuspá félagsins fyrir síðari hluta ársins. Töluverðar afbókanir hafa verið hjá hópum hjá Iceland Travel vegna minnkandi samkeppnishæfni Íslands sem mun valda lakari afkomu í þeim rekstri á þessu ári. Þá hefur mikil framboðsaukning yfir Atlantshafið á nokkrum lykilmörkuðum félagsins haft áhrif á verðþróun á háönn. Á þessu ári er félagið jafnframt að fjárfesta í nýjum áfangastöðum til að styrkja leiðakerfið til lengri tíma. Bókanir fara hægar af stað á þessum stöðum en gert var ráð fyrir sem hefur neikvæð áhrif á afkomu þessa árs.

Til lengri tíma eru horfur í rekstri félagsins góðar; vöxtur er á flestum mörkuðum félagsins, félagið er fjárhagslega sterkt og með góða stöðu á mörkuðum. Við birtingu fyrsta ársfjórðungs kynnti félagið markmið um að það skili yfir 7% EBIT hlutfalli til  lengri tíma litið, frá og með árinu 2019. Það markmið er óbreytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK