„Ákvað að slá til“

Kristinn H. Gunnarsson hefur tekið við sem útgefandi og ritstjóri …
Kristinn H. Gunnarsson hefur tekið við sem útgefandi og ritstjóri Bæjarins besta. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég er ekkert banginn við að takast á við þetta. Ég hef ritstýrt áður á fjölmiðlum, en þeir hafa verið pólitískir,“ segir  Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður og nýr útgefandi og ritstjóri Bæjarins besta.

Greint var frá því í gær að Kristinn hefði keypt Bæj­ar­ins besta og bb.is ásamt léni, vefrétt­ind­um og öðrum verðmæt­um sem út­gáf­unni fylgja af BB út­gáfu­fé­lagi og hefur hann þegar tekið við rekstrinum.

„Aðdragandinn var í stuttu máli sá að mér bauðst þetta og ákvað að slá til,“ segir Kristinn sem keypti miðilinn af hópi Ísfirðinga.

Hann segir einhverjar breytingar kunna að verða á efnistökum. „Maður horfir auðvitað á Vestfirðinga og þau sjónarmið sem þar eru uppi og reynir að gera grein fyrir þeim. Eins líka annars staðar á landinu, enda eru Vestfirðingar líka úti um allt land. Síðan hyggst ég fara inn í almennari umfjöllun eftir atvikum,“ útskýrir Kristinn og nefnir þar fréttaskýringar og úttektir á skýrslum, sem mögulegt viðbótarefni.

Kristinn hefur verið ötull við skrif á heimasíðu sinni undanfarin ár og útilokar ekki að hluti þeirra skrifa muni færast yfir á BB. „Ég er búinn að halda úti minni heimasíðu frá 15. febrúar 2005,“ segir hann og kveðst ætla að halda áfram með heimasíðuna. „Hún verður þó kannski meira fyrir framsetningu á skoðunum. Ég get leyft mér á þeim vettvangi að vera afdráttarlausari en sem ritstjóri á svona miðli.“

Nýr útgefandi tekur ekki yfir samninga við starfsfólk BB. „Ég  mun hins vegar þurfa starfsfólk, en ætla að fara gætilega í það,“ segir Kristinn. Enda sé fjölmiðlarekstur vandasamur. „Ég held að allir helstu fjölmiðlar landsins hafi verið gerðir upp með töluverðu tapi á síðasta ári og þó að þetta sé lítill miðill þá getur hann líka tapað pening. Þannig að ég ætla að fara gætilega í þetta þangað til ég hef áttað mig betur á fjárhagsstöðunni og reyna að stilla tekjuöflunina og haga útgjöldunum í samræmi við það.“

Hann segir útgáfustarfið leggjast vel í sig og hann búi efalítið að þeirri fjármálareynslu sem hann hafi öðlast við fyrri ritstjórastörf. „Ég held að mér hafi alltaf tekist að skila af mér afgangi og alltaf borgað alla reikninga,“ bætir hann við.

„Sjálfsagt fæ ég svo gott fólk til að vinna með mér, því ég held að það hafi alltaf verið á þessum miðli aðgangur að góðu fólki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK