Gætum nýtt fagforstjóra betur

Guðjón Heiðar segir góða þekkingu á rekstri fyrirtækis eða geiranum …
Guðjón Heiðar segir góða þekkingu á rekstri fyrirtækis eða geiranum þar sem það starfar ekki koma í stað góðra stjórnunarhæfileika. Haraldur Jónasson/Hari

Guðjón Heiðar Pálsson segir íslenskum fyrirtækjum hætta til að velja sk. geiraforstjóra frekar en fagforstjóra til að stýra rekstrinum. „Þekkingarlega stendur þó fagforstjórinn skörinni hærra en geiraforstjórinn, enda hefur fagforstjórinn menntað sig sérstaklega með einhverjum hætti til að gegna starfinu.“

Geiraforstjóri, í þessu tilviki, er stjórnandi sem klifrar upp metorðastigann í tilteknum geira en er ekki með mikla stjórnunarmenntun. „Þetta eru afburðamanneskjur sem henta vel til að gegna t.d. stöðu framkvæmdastjóra tiltekins sviða og nýta þar sérþekkingu sína s.s. á sviði fjármála, verkfræði eða sölu, en þetta er ekki endilega hæfasta fólkið til að fylla í skarðið þegar forstjórastóllinn losnar. Samt er algengt á Íslandi að velja úr röðum framkvæmda- og sviðsstjóra þegar manna þarf forstjórastöður,“ segir Guðjón Heiðar. „Ástæðan er sú að þar sem þetta fólk þekkir geirann og fyrirtækið vel þykir það af þeim sökum hæfast til að leiða reksturinn. Vissulega getur það verið rétt mat að þetta fólk geti stýrt fyrirtækinu, en getur það leitt reksturinn í anda þjónandi forystu til móts við nýja og síbreytilega tíma? Það getur fagforstjórinn gert.“

Þarf persónutöfra og næmi

Guðjón Heiðar, sem er framkvæmdastjóri BCW, Burson Cohn & Wolfe Íslandi, segir grundvallarmun á því að stýra sérhæfðu sviði og halda utan um stefnu heils fyrirtækis. „Fagforstjóri getur gengið inn í hvaða fyrirtæki sem er, fengið alla starfsmenn á sitt band og leitt reksturinn í samræmi við stefnulega áætlun. Hann þarf ekki að hafa reynslu af sjómennsku til að geta stýrt sjávarútvegsfyrirtæki eða vera verkfræðingur til að geta stýrt vegagerð. Fagforstjórinn þekkir lögmál stefnulegrar nálgunar, þekkir samvirkni á hverju stigi og á milli stiga, og hlutverk hans gengur að stóru leyti út á þjónandi forystu,“ segir Guðjón Heiðar og bætir við að lausn lítillar þjóðar á vöntun á forstjórum geti verið fólgin í fagforstjóranum.

Fagforstjórinn, segir Guðjón Heiðar, ræður síðan til fyrirtækisins framkvæmdastjóra sem hafa dýpri þekkingu á ólíkum sviðum rekstrarins. „Fagforstjórinn getur leitt ótakmarkaðan fjölda af sérhæfðu starfsfólki án þess að hafa nokkuð þekkingarlegt forskot á þeim tilteknu sviðum sem sérfræðingarnir fást við, á meðan framkvæmdastjórinn, stjórnandinn, þarf að vita jafnmikið og allir sem hann stjórnar – og a.m.k. einu meira.“

Einnig þarf fagforstjórinn að búa yfir töluverðum hæfileikum í mannlegum samskiptum. „Nauðsynlegt er að hann hafi mikla persónutöfra og sé næmur á vellíðan og vanlíðan starfsmanna. Hann nýtir þann breytileika sem má finna innan starfsmannahópsins til að efla heildina og dregur um leið fram það sem hver og einn er bestur í. Hann treystir líka starfsfólki sínu, samvirkni og samskiptum þeirra í milli.“

Þurfa vettvang og fræðslu

En er þá ekki allt sem þarf, til að geta kallast góður fagforstjóri, að vera með MBA-gráðu? „Í dag virðast margar MBA-námsbrautir vera óttaleg hraðsuða í rekstrarfræðum en lítið kafað ofan í hirðingjahlutverk forstjórans. MBA-nám er ekki lykillinn heldur viljinn til verka; að skilja stefnulega hugsun og aðferðafræði vandaðrar stjórnunar.“

Gæti hjálpað, að sögn Guðjóns Heiðars, að setja á laggirnar sérstakan vettvang fyrir fagforstjóra. „Forstjórar eiga erfitt með að leita sér stuðnings inni í fyrirtækinu því það getur skaðað trúverðugleika þeirra. Þeir þurfa því að ná sér í stuðning og styrk utan rekstrarins en á Íslandi er sá vettvangur lítill og vanmáttugur,“ útskýrir Guðjón Heiðar. „Hjá Burson Cohn & Wolfe erum við að skapa slíkan vettvang þar sem forstjórar geta leitað í sarp innlendra og erlendra ráðgjafa og fræðst um nýjustu stefnur og strauma og haft stað til að skiptast með óformlegum hætti á skoðunum við aðra fagforstjóra.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK