Útilokar fríverslun við Kína fríverslun við Bandaríkin?

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hugsanlegt er að Bandaríkin geri kröfu um það í öllum fríverslunarviðræðum í framtíðinni að ákvæði verði sett í mögulega fríverslunarsamninga þess efnis að tilkynna þurfi bandarískum stjórnvöldum ef hafnar verði viðræður um fríverslun við ríki sem ekki eru skilgreind sem markaðshagkerfi. Komi til fríverslunarsamnings í kjölfar slíkra viðræðna gæti það leitt til þess að Bandaríkin segðu upp fríverslunarsamningi sínum við viðkomandi ríki.

Þetta kemur fram í frétt viðskiptablaðsins Financial Times en slíkt ákvæði er að finna í nýjum fríverslunarsamningi Bandaríkjanna við Kanada og Mexíkó sem tók við af NAFTA. Ljóst þykir að ákvæðinu er fyrst og fremst beint gegn Kína sem ekki er alþjóðlega viðurkennt sem markaðshagkerfi. Haft er eftir ónafngreindum háttsettum bandarískum embættismanni að þetta sé fordæmi fyrir fríverslunarsamninga Bandaríkjanna í framtíðinni.

„Það er mikilvægt að við sjáum til þess að ekki verði grafið undan þeim samningum sem við gerum og að Kína finni ekki bakdyr til þess að öðlast aðgang að markaði Bandaríkjanna,“ segir bandaríski embættismaðurinn enn fremur í samtali við Financial Times. Fram kemur í fréttinni að þetta gæti til að mynda haft áhrif á áform Bretlands um að semja um fríverslun bæði við Bandaríkin og Kína eftir að landið hefur yfirgefið Evrópusambandið.

Stjórnmálamenn á Íslandi hafa um árabil lýst áhuga sínum á fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Ísland hefur þegar samið um fríverslun við Kína en óvíst er hvort sú staðreynd kunni að hafa áhrif á möguleika Íslands á að semja um fríverslun við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK